Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:02:52 (3896)

1997-02-25 14:02:52# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), SK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:02]

Svanhildur Kaaber:

Hæstv. forseti. Í greinargerð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem hér er til umræðu er margt athyglisvert. Þar eru færð enn ein rökin fyrir því að leggja þurfi meiri áherslu á menntun þjóðarinnar en gert hefur verið til þessa en það hefur einmitt verið áhyggjuefni mjög margra hvað skólakerfið, allt frá grunnskóla til háskóla, hefur þurft að líða undir metnaðarleysi og niðurskurðargleði þeirra sem því hafa stjórnað undanfarin ár. Nefndar eru nokkrar leiðir sem taldar eru farsælar til þess að bæta menntunina og menntakerfið. Sumar þeirra eru allra góðra gjalda verðar en aðrar eru að mínu mati vægast sagt hæpnar og full ástæða til að staldra við þegar ein hinna virtu stofnana Háskóla Íslands, þeirrar menntastofnunar sem fyrst og fremst ætti að standa vörð um framsýni og umburðarlyndi, telur þær leiðir heppilegar.

Í greinargerðinni er rökstutt að aukin menntun leiði til meiri hagvaxtar að öðrum forsendum óbreyttum. Þetta ætti að mínu mati fyrst og fremst að tryggja með því að efla og bæta menntakerfið allt á öllum skólastigum í öllum skólagerðum og gera skólagöngu og aukna menntun fýsilegan og eftirsóknarverðan kost fyrir alla landsmenn. Til þess er fyrst og fremst ein leið augljós. Það er sú leið að draga úr tilkostnaði einstaklinga við að mennta sig og gera öllu fólki kleift að standa straum af afborgunum á námslánum sínum. Það verður að hætta að brjóta niður námslánakerfið. Það verður þvert á móti að byggja það upp og gera það þannig úr garði að allir eigi greiðan aðgang að því og geti risið undir afborgunum af námslánum sínum þegar fram líða stundir. Það má ekki fara þá leið, sem mér sýnist lagt upp með í greinargerðinni, að markaðsvæða menntunina og auka enn tekjumuninn í landinu.

Virðulegi forseti. Vissulega er mikilvægt að treysta langskólamenntun, hvort sem það er háskólamenntun eða sérhæft nám á öðrum skólastigum, t.d. iðnmenntun. En það má ekki láta í blindni tímabundin arðsemissjónarmið ráða för. Miklu mikilvægara er að efla almenna menntun þjóðarinnar, tryggja möguleika bæði faglærðra og ófaglærðra til símenntunar alla starfsævina og auka þannig líkur til þess að allir landsmenn geti horft til farsælli framtíðar.