Menntun, mannauður og hagvöxtur

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 14:07:40 (3898)

1997-02-25 14:07:40# 121. lþ. 77.95 fundur 207#B menntun, mannauður og hagvöxtur# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[14:07]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessum málum. Einhvers staðar stendur að framtíðin sé þeirrar þjóðar sem á bestu skólana og hér eru til umfjöllunar hugtök eins og menntun, mannauður og hagvöxtur. Hugtökin skipta auðvitað máli en það er líka hættulegt að festast í hugtökum. Menntun er auðvitað víðar heldur en í skólakerfinu. Við getum gjarnan spurt: Hvar er færnin sem menntunin skapar og hvar eru nýsköpunarhæfileikarnir? Við útskrifum úr Háskóla Íslands, Samvinnuháskólanum, Tækniskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri viðskiptafræðinga, hagfræðinga, verkfræðinga, iðnfræðinga, rekstrarfræðinga o.s.frv., sem sækjast fyrst og fremst eftir því að vinna hjá öðrum en sjálfum sér. Menntunin verður að vera hagnýt og nýtast þjóðinni allri.

Við búum ekki enn við fullt jafnrétti í framhaldsnámi. Ég tek sem dæmi fólk sem býr utan alfaraleiðar og þarf að sækja framhaldsnám um langan veg. Dreifbýlisstyrkir þjóna því miður ekki til fullnustu tilgangi sínum í þessum tilfellum. Það er aðstöðumunur fyrir íbúa í Skaftafellssýslu sem þarf að leigja íbúð eða herbergi fyrir nemendur sem fara t.d. í Fjölbrautaskóla Suðurlands eða í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og svo íbúa í þéttbýli þar sem framhaldsskólar eru starfræktir og nemendur geta farið heim til sín í lok skóladags.

Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar snobbað fyrir bóknámi, verknámið skipar ekki sama sess. Verknám og bóknám er auðvitað samþætt og ég hef þá trú að tölvan brúi þetta bil í framtíðinni. Matreiðslumeistarar og hárgreiðslumeistarar á Íslandi hafa lyft starfsgreinum sínum til mikillar virðingar hér á landi og erlendis. Íslenskir matreiðslumenn og hárskurðarmenn eru á heimsmælikvarða og það er full ástæða til að benda á þetta. (Forseti hringir.)

Það er mikil gróska í tónlistarnámi hér á landi og ég hef þá tilfinningu að mesti mannauðurinn sé að fólk finni sig í lífinu, í námi og starfi og hafi síðan möguleika á símenntun.