Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 15:53:59 (3907)

1997-02-25 15:53:59# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[15:53]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mun í seinni ræðu minni í dag ræða um efnisatriði þeirra frv. sem við ræðum hér og skýra þann fyrirvara minn við brtt. meiri hluta hv. félmn. við frv. til laga um atvinnuleysistryggingar.

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um atvinnuleysistryggingar. Verkalýðsforustan hefur haft ýmislegt við þetta frv. að athuga og henni hefur ekki nægt að koma með athugasemdir og tilmæli til hv. félmn. Nei. ASÍ hefur beinlínis krafist þess að frv. verði dregið til baka ellegar að gerðar verði á því þær breytingar sem sá ágæti félagsskapur gæti sætt sig við. Við því hefur hæstv. ríkisstjórn orðið og það eru m.a. breytingar ASÍ sem við erum að ræða á hinu háa Alþingi í dag.

Í hv. félmn. kom meira að segja fram sú spurning frá einum hv. þm. hvort leitað hefði verið samþykkis BSRB og BHM á breytingum ASÍ á lagafrv. Þessi spurning vakti ekki neina sérstaka athygli og þótti eðlileg. Spurning um það hvort aðili úti í bæ væri búinn að samþykkja lagafrv. á hinu háa Alþingi. Þvílík er niðurlæging hins háa Alþings.

Herra forseti. Í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir svo, með leyfi forseta: ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.`` Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta: ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvald.``

Af þessu má ljóst vera hvert er vald hins háa Alþingis. Það eitt afgreiðir lög í landinu og ríkisstjórnir verða að reiða sig á meiri hluta Alþingis.

Herra forseti. Hver er reyndin? Hér á hinu háa Alþingi eru nánast aldrei samþykkt lög sem samin eru af frumkvæði þingmanna, aldrei. Flest lög eru sett að frumkvæði framkvæmdarvaldsins og samin af embættismönnum. Og svo er meiri háttar lagasetning. Hún er yfirleitt sett að frumkvæði þrýstihópa, samtaka útgerðarmanna, bænda, opinberra starfsmanna, sveitarfélaga, að ógleymdum aðilum vinnumarkaðarins. Þessir aðilar senda ríkisstjórnum lagafrv. til samþykktar sem síðan eru stimpluð á hinu háa Alþingi.

Þrýstihópar geta eflaust samið hin ágætustu lagafrv. með dýrum sérfræðingum sínum. En þau eru alltaf því marki brennd að þau henta þrýstihópnum betur en þjóðinni. Þannig leitast verkalýðsforustan t.d. við að gera sig ómissandi með því að félagsmenn hennar verði að leita til hennar um flesta hluti. Það er eðlilegt. En það er engan veginn víst að hinum óbreytta félagsmanni henti að vera með lögum gert að greiða alls konar gjöld til verkalýðsfélags síns og fá svo hlunnindi frá félaginu í staðinn.

Herra forseti. Kjósendur hafa margoft lýst því að það sé sama hvaða flokk eða þingmenn þeir kjósi, það sé sami rassinn undir þessu öllu, eins og einn komst að orði. Þessi skoðun er ekki út í hött. Það eru ekki hv. þingmenn og ekki einu sinni hæstv. ríkisstjórn sem ákveður stefnuna. (SvG: Hver þá?) Það eru þrýstihóparnir og þeir breytast ekki neitt þó kjósendur gangi að kjörborði á fjögurra ára fresti. Þannig vinnur valdaafsal hins háa Alþingis gegn hagsmunum kjósenda og þeim finnst að þeir hafi ekki neitt val.

Herra forseti. Hvenær hóf hið háa Alþingi að framselja vald sitt til þrýstihópa? Svo lengi sem ég man hafa þrýstihópar haft óeðlileg afskipti af lagasetningu og mér sýnist að þetta valdaframsal sé að aukast með aukinni fjölmiðlun. Svarið við spurningunni í hv. félmn. hvort BSRB og BHM hefðu samþykkt breytingar ASÍ hlýtur að leiða til nýrrar spurningar. Hvaða aðilar úti í bæ hafa löggjafarvald auk ASÍ?

Hvers vegna hafa hv. þingmenn framselt vald sitt? Á því eru margar skýringar. Mér sýnist sú skýring nærtækust að sundrung hv. þingmanna og flokkadrættir valdi því að leitað er eftir stuðningi aðila utan þings. Hv. þingmenn virða ekki skoðanir hvers annars og umræðan snýst oftar en ekki um það hver sigri frekar en að hv. þingmenn séu að leita leiða að því marki sem þeir allir vilja, þ.e. velsæld íslensku þjóðarinnar. Hversu mörg skynsamleg frv. stjórnarandstöðunnar hafa verið samþykkt í áranna rás? Sárafá ef nokkur.

Herra forseti. Ég hlýt að benda hv. þingmönnum sem lyppast niður undan hótunum um verkföll og alls konar óáran á það vald sem þeim er gefið samkvæmt stjórnarskránni. 32 þingmenn geta sett ríkisstjórnina af fyrir kvöldmat. Og þeir geta sett þau lög um atvinnuleysistryggingar sem þeir telja skynsamleg og hinum atvinnulausa og þjóðinni til heilla burt séð frá hótunum aðila úti í bæ. Þetta er valdið sem okkur hv. þingmönnum er gefið og við þiggjum það frá þjóðinni í almennum kosningum.

Mega hv. þingmenn framselja löggjafarvald sitt til aðila utan þings hvort sem er til þrýstihópa eða framkvæmdarvalds? Nei. Að mínu mati bannar stjórnarskráin slíkt valdaframsal. Þegar ASÍ og aðrir þrýstihópar fá fram breytingu á lögum á hinu háa Alþingi, þá er það atlaga að lýðræðinu sem er grundvöllur þjóðskipulags okkar. (KÁ: Hvað er þingmaðurinn að gera hérna?)