Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 16:03:20 (3909)

1997-02-25 16:03:20# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[16:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Allir verðum við hv. þingmenn að gera málamiðlanir vegna þess að við ráðum ekki einir. Við erum 1 af 63, hver og einn okkar. Við verðum ætíð að vega og meta meiri hagsmuni fyrir minni, alltaf. Menn samþykkja oft vissa hluti vegna þess að þeir eru hlynntari þeim en ekki, þó að þeir séu alls ekki hlynntir þeim. Menn þurfa alltaf að vega og meta meiri hagsmuni fyrir minni. Þetta hef ég haft að leiðarljósi. Þess vegna hef ég stutt nokkur mál og ég mun styðja þetta mál líka vegna þess að það er betra heldur en ekki en það er engan veginn nógu gott.

Það sem ég er að benda á eru ítök aðila utan þings á löggjafarsamkunduna Ég er á móti þeim hvort sem þau koma frá Verslunarráðinu eða Vinnuveitendasambandinu eða ASÍ. Það er nánast sama hvaðan þau koma, ég er á móti þeim og ég hef alltaf mótmælt þeim. Ég vil benda hv. þm. á að ég hef verið á móti mörgum stjórnarfrv. vegna sannfæringar minnar og vegna þess að ég taldi að ég væri að fórna meiri hagsmunum en ég fengi í staðinn. Ég lýsi því yfir að ég tel ekki að ég sé að tala hér af hræsni. Ég meina virkilega það sem ég segi.