Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 16:09:35 (3913)

1997-02-25 16:09:35# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[16:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég væri mjög ánægður ef þingmenn gætu rétt aðeins litið upp úr dægurkarpinu þegar þeir ræða svona alvarlega hluti. Ég talaði ekki um þessa ríkisstjórn. Ég talaði almennt um ríkisstjórnir liðinna ára og áratuga. Ég álít þetta mjög alvarlegt mál, svo alvarlegt að það skerði löggjafarvald Alþingis. Alþingi hefur í reynd framselt sitt vald.

Frv. sem við erum að ræða og sem varð tilefni þessara orða minna, við það er ég með fyrirvara. Ég er einmitt með fyrirvara vegna þess að ég er ekki sammála þeim breytingum sem ASÍ hefur fengið gerðar á frv. og ég ætla að greiða atkvæði gegn þeim atriðum sem felast í því. Meðal annars að atvinnulausum gæti verið gert að mæta á skrifstofu verkalýðsfélaganna til að ná í atvinnuleysisbætur sínar. Það er nefnilega verið að opna á það í þessum brtt. ASÍ og ég er á móti.

Ég vil taka það aftur fram að ég er að ræða um grundvallaratriði, ekki það hvernig þessi ríkisstjórn eða einhver önnur ríkisstjórn hefur gert. Málið er að það er alveg sama hvort kjósendur kjósa Alþfl., Sjálfstfl., Alþb., Kvennalistann, sama hvaða flokk. Allir þessir flokkar eru í reynd alltaf að framfylgja stefnu þrýstihópanna hvort sem það er í landbúnaðarmálum, verkalýðsmálum, tryggingamálum, skattamálum eða sjávarútvegsmálum, bara nefna það. Það er þess vegna sem ég kem inn á þetta mál. Kjósendur hafa misst þann lýðræðislega rétt sem þeir hafa vegna þessa valdaframsals.