Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 17:58:02 (3926)

1997-02-25 17:58:02# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[17:58]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get upplýst að það var ekki Hólmfríður sem reif heftið í sundur heldur við vegna þess að það sem okkur fannst skipta máli voru fyrst og fremst tölurnar um atvinnuleysi. En ég vil líka minna á það að við þingmenn fáum þessi hefti send í heilu lagi og ég hef þann vana að skoða þau í hverjum einasta mánuði og reyndar varð eitt þessara hefta tilefni til fyrirspurnar til hæstv. félmrh.

Erindi mitt hingað í andsvar var í fyrsta lagi það að mótmæla því sem fram kom hjá hæstv. félmrh. þess efnis að við stjórnarandstæðingar hefðum ekki kynnt okkur brtt. sem höfðu verið lagðar fram. Þær voru að sjálfsögðu kynntar í hv. félmn. lið fyrir lið og ég minni jafnframt á að margar þeirra eiga rætur að rekja til þeirrar gagnrýni sem stjórnarandstæðingar komu fram með, bæði í umræðunni og í þeirri miklu vinnu sem hefur verið lögð í þessi frumvörp í hv. félmn.

Varðandi skólastjórnendur vil ég enn og aftur --- það hefur þá verið upplýst að það eru skólastjórnendur sem ætlunin er að setjist í þessi ráð sem reyndar hefur ekki áður komið skýlaust í ljós. Ég get upplýst að það hringdi í mig áðan fulltrúi Félags framhaldsskólanema sem hafði verið að hlusta á umræðurnar í sjónvarpinu og hann hafði staðið í þeirri meiningu að það væru nemendurnar sem ættu að verða þessir fulltrúar. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið afar óskýrt. En hvað um það. Ég veit að það er til starfandi félag skólameistara sem er bara samráðsvettvangur skólameistara og mér finnst óeðlilegt að það fari að úthluta sætum í þessum nefndum. Ég hefði viljað kveða miklu nánar á um það í lögunum.

Með þessum samningum við reynslusveitarfélögin verða í það minnsta tvenns konar kerfi í gangi. Það verða svæðisvinnumiðlanir, það verða reynslusveitarfélögin, ef ég skil þetta rétt, og síðan væri hugsanlegt að það væri líka í þriðja tilviki þar sem væri samið við sveitarfélög eða aðila sem taka þessi mál að sér, ekki reynslusveitarfélög, og því spyr ég ráðherra: Hvers konar kerfi er þá búið að smíða?