Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:02:26 (3928)

1997-02-25 18:02:26# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:02]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í mínum huga var það alltaf ljóst að það vantaði lagastoð í frv. til þess að semja við sveitarfélögin. Ég margspurði um þetta og leitaði í frv. en fann ekki slíka stoð. Mér finnst því rétt, vilji menn fara inn á þá braut, að það sé ótvíræð heimild til þess að semja við sveitarfélögin.

En það sem ég er að velta fyrir mér er þetta grundvallaratriði að það á að vera tilgangur þessara laga að skapa jafnvægi milli framboðs vinnu og eftirspurnar eftir henni. Menn kvarta yfir því að vinnumiðlanir hafi ekki verið nógu skilvirkar og góðar og það eru rökin fyrir því að færa þetta frá sveitarfélögum til ríkisins, en síðan á að fara ýmsar leiðir þannig að það verður margfalt kerfi í gangi og ég spyr mig þeirrar spurningar: Næst sá tilgangur, sem var settur fram í upphafi, að bæta þjónustuna, gera hana skilvirkari, skapa fleiri úrræði fyrir hina atvinnulausu? Hvernig næst þessi tilgangur með að gera þetta kerfi svona margfalt eins og ætlunin virðist vera? Þetta er ekki einhlítt ríkiskerfi. Þetta verður hjá einstaka sveitarfélögum, sums staðar ríkiskerfi, sums staðar jafnvel hjá einkaaðilum og hvað kemur út úr þessu?

Ég ítreka þá skoðun mína að ég held að það hefði verið miklu betri leið að þessi málefni yrðu áfram hjá sveitarfélögunum. Það yrði stuðlað að aukinni samvinnu þeirra þannig að hún næði yfir stærri svæði og þau skipulegðu þessi mál betur.