Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:05:29 (3930)

1997-02-25 18:05:29# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:05]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Vinnumarkaðsmál eru komin til 2. umr. að aflokinni mikilli umfjöllun og að mínu mati vandaðri umfjöllun í hv. félmn. Alþingis. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það hafi verið mjög skynsamlega og eðlilega að öllu verkinu staðið og ég tek undir það að mér finnst formaður nefndarinnar hafa staðið sig ákaflega vel í þeirri vinnu sem og nefndin öll sem vann að þessu máli af mikilli samviskusemi þannig að ég tel að okkur sé að sjálfsögðu ekkert að vanbúnaði að taka þetta mál til efnislegrar meðhöndlunar. Ég er alveg ósammála því sem fram kom í máli hv. 5. þm. Suðurl. um það að tíminn hafi verið knappur til þess að undirbúa þessa umræðu. Öðru nær. Ég held að þetta mál beri þannig að að við höfum kannski haft meiri tíma til þess að undirbúa umræðuna heldur en oft áður.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að þetta mál hafði þegar fengið nokkra umfjöllun á opinberum vettvangi áður en það kom inn í þingið. Það var rætt hér í nóvembermánuði. Þessi mál komu til félmn. þann 20. og 21. nóv. Leitað var umsagna hjá fjöldamörgum aðilum, beðið um skriflegar umsagnir hjá fjöldamörgum aðilum sem sendu inn umsagnir sínar eftir áramótin. Kallaðir voru fyrir nefndina fjöldamargir aðilar sem ræddu við nefndina, skiptust á skoðunum og svöruðu fyrirspurnum eins og eðlilegt er. Fulltrúar stóru verkalýðssamtakanna eins og Alþýðusambands Íslands, BHM og BSRB, komu a.m.k. tvisvar sinnum til fundar við nefndina til að ræða þessi mál. Breytingartillögur voru settar fram, við skulum segja í tveimur megináföngum af meiri hluta félmn. Síðari áfanginn, fullbúinn að mestu, leit dagsins ljós á fimmtudaginn í síðustu viku þannig að það má segja sem svo að miðað við þær annir sem oft eru hér í þinginu hafi þetta mál fengið lengri aðdraganda heldur en við þekkjum í mörgum öðrum tilvikum. Því tel ég, virðulegi forseti, að þegar við skoðum þetta í þessu samhengi, sé það mjög ósanngjarnt þegar því er haldið fram að það hafi verið eitthvert flausturslegt yfirbragð yfir þessu máli eða málinu verið þannig uppstillt að það hafi verið á einhvern hátt erfitt fyrir minni hluta nefndarinnar að koma sínum sjónarmiðum að í minnihlutaáliti. Ég hafna þeirri túlkun algjörlega.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlega í efnisatriði frv. Mig langar aðeins að dvelja við nokkrar meginspurningar sem m.a. hafa komið fram í umræðunni sem ég tel mjög eðlilegar og vil reyna að segja mína skoðun á þeim spurningum.

Í fyrsta lagi hefur mikið verið rædd sú meginstefna frv. að fela þetta tiltekna verksvið ríkinu en ekki sveitarfélögunum eins og nú er. Mér finnst mjög eðlilegt að þessar spurningar vakni vegna þess að það er alveg rétt sem fram hefur komið að það sjónarmið hefur frekar verið uppi að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna heldur en öfugt. Sérstaklega hefur það verið verkefni þessarar hæstv. ríkisstjórnar að vinna að því. Það var núv. hæstv. ríkisstjórn sem kom því máli heilu í höfn að færa grunnskólann frá ríkinu að fullu til sveitarfélaga og það var líka núna rétt fyrir áramótin að okkur tókst að afgreiða stjfrv. frá hæstv. ríkisstjórn sem fól í sér að við flytjum þann stóra málaflokk, málefni fatlaðra, frá ríkinu til sveitarfélaganna, og það mun verða á árinu 1999.

Það er því ekkert óeðlilegt að menn ræði þá spurningu hvort hér sé ekki um að ræða stílbrot, að við séum að færa þetta verkefni undir ríkið. Ég held að það sé alls ekki þannig. Auðvitað verðum við að skoða hvert mál út af fyrir sig og efnislega. Við erum fyrst og fremst að ræða um það hvernig við skiptum verkefnum milli ríkisins og sveitarfélaganna og ég held að við höfum í flestum tilvikum komist að þeirri niðurstöðu að það sé langaffarasælast að ríkið sjái um tiltekin verkefni og sveitarfélögin um tiltekin verkefni. Það er einfaldlega eðli þessa máls, a.m.k. eins og málum er komið fyrir núna, að það er einfaldlega skynsamlegra að þetta sé á hendi ríkisins heldur en sveitarfélaganna. Vinnumarkaðurinn verður sífellt stærri. Samgöngur og aðrar aðstæður gera það að verkum að fólk á miklu betra með að sækja vinnu yfir sveitarfélagamörk heldur en áður, jafnvel þó sveitarfélögin hafi verið að stækka og það er mjög mikilvægt í þessu sambandi að það sé einhver einn aðili sem hafi til þess aðstöðu að geta vakað yfir þessu og skoðað þessi mál í samhengi. Reynslan sem við höfum haft, því miður, virðulegi forseti, af núverandi fyrirkomulagi er sú að þetta hefur ekki gefist nægilega vel. Þessi heildaryfirsýn og hin nauðsynlega tilhneiging sem þarf að vera til staðar í kerfinu til þess að tryggja að það sé sem mestur sveigjanleiki á vinnumarkaðinum, tryggja það að menn sæki sér vinnu jafnvel yfir sveitarfélagamörk --- þetta hefur mikið skort á í núverandi kerfi. Þess vegna er það alveg rétt sem m.a. kemur fram í athugasemdum við frv. til laga um atvinnuleysistryggingar að það er auðvitað grundvallaratriði að tryggja annars vegar samhæfingu og hins vegar eflingu vinnumarkaðsaðgerðanna sem hafi það í för með sér að draga úr atvinnuleysi. Því auðvitað er það meginmarkmið með þessum frumvörpum að reyna að draga úr atvinnuleysinu. Það getum við að nokkru leyti gert með því að gera skráninguna markvissari, tryggja það að hún endurspegli fyrst og fremst atvinnuleysi en ekki eitthvað annað, ekki t.d. einhverjar félagslegar eða aðrar slíkar ástæður sem gera það að verkum að fólk getur ekki stundað vinnu, heldur séum við fyrst og fremst að reyna að mæla atvinnuleysi.

Í öðru lagi erum við að reyna að gera hér ráðstafanir til þess að það dragi úr atvinnuleysinu. Við búum til einhvern hvata til þess að atvinnuleysi hér á landi verði minna en það er í dag, minna en það er í nágrannalöndunum og við reynum að bægja frá þessu böli atvinnuleysisins eins mikið og við mögulega getum. Það er markmiðið með þeirri lagasetningu sem hér er í bígerð og það er niðurstaða þeirra sem um þessi mál hafa fjallað að það sé skynsamlegra að hafa þetta svona en ekki þannig að þessu sé dreift á milli sveitarfélaganna.

Nú hlýt ég, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að við undirbúning vinnumarkaðslöggjafarinnar komu m.a. fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar að því máli, sem eru auðvitað þeir aðilar sem þekkja þessi mál best, sem hafa mestu yfirsýnina. Á þessum aðilum brennur þessi eldur. Það eru þeir sem hafa þetta daglega í höndunum að reyna að vinna að því að miðla störfum. Þeir eru í bestu sambandi við hina atvinnulausu og þekkja þessi mál býsna vel. Og það varð sameiginleg niðurstaða þessara aðila að það væri miklu betra að skipa þessum málum með þessum hætti heldur en hafa þetta á hendi sveitarfélaganna.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að vekja sérstaka athygli á því að hér hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að eiga gott samráð við verkalýðshreyfinguna. Undir það skal tekið þó að það sé auðvitað þannig að í lok dagsins, þegar við erum að vinna að lagasetningu, þá sé það meiri hluti þingsins sem hlýtur að taka sínar ákvarðanir og gera það á sína eigin pólitísku ábyrgð. Hann getur ekki varpað þeirri ábyrgð yfir á einhverja aðila úti í bæ, hvort sem það eru aðilar vinnumarkaðarins eða einhverjir aðrir. Það er auðvitað á pólitíska ábyrgð meiri hlutans hverju sinni hvernig hann vinnur síðan úr þessu samráði.

Ég spyr núna: Hafi það verið svona mikilvægt, eins og talsmenn minni hlutans í félmn. hafa rætt um, að hafa gott samráð við verkalýðshreyfinguna, hvernig í dauðanum stendur þá á því að talsmenn þessa sama minni hluta leggja það til að ganga þvert gegn niðurstöðu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í undirbúningnum að þessari lagasetningu, sem lögðu það til varðandi vinnumarkaðshlutann að þessu máli væri skipað einmmitt svona? Þeir gerðu athugasemdir við atvinnuleysistryggingafrv. en þeir gerðu það ekki varðandi hinn hlutann. Þess vegna vekur það óneitanlega mikla undrun, svo ekki sé meira sagt, að hv. fulltrúar minni hlutans í félmn. leggja það til að við förum hér í lagasetningunni þvert á niðurstöðu verkalýðshreyfingarinnar, talsmanna aðila vinnumarkaðarins og fólks sem þekkir vel til varðandi skipulag þessara mála.

Sveitarfélögin höfðu nokkuð aðra afstöðu, en ég hlýt þó, virðulegi forseti og hv. formaður félmn., að vekja athygli á umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um frv. til laga um vinnumarkaðsaðgerðir þar sem Samband sveitarfélaga segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

[18:15]

,,Ýmis sveitarfélög hafa rekið mjög virkar vinnumiðlanir og eðlilegt væri að gera ráð fyrir því í frumvarpinu að heimilt væri að fela sveitarfélögum, einu eða fleiri saman, að annast framkvæmd vinnumiðlunar á tilteknum svæðum.``

Það er einmitt það sem gert er ráð fyrir í brtt. meiri hluta hv. félmn. Þar er beinlínis lagt til að opnað verði fyrir þessa heimild til þess að gera samning við sveitarfélög eða aðra aðila um það að annast þessar vinnumarkaðsaðgerðir, annast þessar vinnumiðlanir. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt. Engu að síður er ekkert horfið frá því grundvallarprinsippi að það sé einhver einn aðili sem hafi samhæfinguna með höndum. Það er hins vegar opnað á þessa heimild gegn því að tiltekin skilyrði séu uppfyllt. Og það er ekkert verið að búa til þrefalt kerfi, eins og hv. 14. þm. Reykv. sagði. Það er rangt. Það er eitt kerfi. Hins vegar er síðan ýmsum aðskiljanlegum aðilum hugsanlega falið að vinna verkin. Þetta kann að virka flókið en það er ekkert flókið í því þegar einn aðili felur aðskiljanlegum aðilum öðrum að vinna verkin. Þetta er bara eins og þekkist víða úti í þjóðfélaginu að menn fá til verktöku aðra sem betur eru til verksins fallnir. Það er mjög algengur hlutur og er ekkert flókið og bögglast ekkert fyrir neinum og mun ekki bögglast fyrir neinum og alls ekki þessum svæðismiðlunum að standa þannig að þessu.

Engu að síður vil ég segja það í þessu sambandi að það er gríðarlega mikilvægt að þetta ákvæði verði ekki notað til þess að opna á mjög margar svæðisvinnumiðlanir. Við þurfum að hafa þannig að þetta nái yfir sem stærst landsvæði, þó þannig auðvitað að það sé landfræðilega gerlegt að vinna verkin og verður að treysta hæstv. félmrh. til þess að tryggja svo verði. Engu að síður er það mjög mikilvægt að þau svæði sem svæðisvinnumiðlanirnar taki yfir séu stór til þess að við lendum ekki í sömu gryfjunni og við erum í í dag að vinnumarkaðssvæðin séu látin einskorðast við eitt og eitt sveitarfélag þannig að menn hafni vinnu í nágrannasveitarfélagi þrátt fyrir að landfræðilegar aðstæður geri það að verkum að menn geti vel sótt vinnu yfir sveitarfélagamörk.

Virðulegi forseti. Það er mikil ástæða til að vekja athygli á því sem er meginmarkmið þessa frv. hér um atvinnuleysistryggingar og það er að þeir sem atvinnulausir séu eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði og jafnframt að tryggt sé að þeir séu í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Það er þetta atriði með atvinnuleitina sem ég held að sé mikilvægt að undirstrika. Í frv. og lagasetningunni er gert ráð fyrir því að settar séu upp sérstakar starfsleitaráætlanir. Að vísu lagði meiri hluti félmn. til breytingu sem fól það í sér að ekki yrði skylt að gera starfsleitaráætlun strax í upphafi vegna þess að það er nú bara einfaldlega þannig að mjög stór hluti, eða a.m.k. helmingurinn af atvinnulausum, dettur sem betur fer tiltölulega fljótt út af atvinnuleysisskrá og fær vinnu á nokkrum fyrstu vikunum, þannig að það er ekki skynsamlegt að gera starfsleitaráætlanir fyrir alla en alla vega þegar liðinn er tiltekinn tími, ég held að í frv. sé lagt til að það séu tíu vikur. Þetta atriði fékk almennt gríðarlega jákvæðar viðtökur í nefndinni. Fulltrúar hópa eins og t.d. frá vinnuklúbbnum, frá Hinu húsinu og Lýðskólanum, svo ég nefni bara þrjú dæmi, töldu þetta t.d. mjög jákvætt og þýðingarmikið. Ég held að það sé ástæða til að vekja athygli á þessu atriði vegna þess að það er nú svo að sá sem einu sinni er orðinn atvinnulaus stendur oft höllum fæti. Og það kom rækilega fram í umfjölluninni í félmn. Alþingis að sá sem einu sinni hefur verið skráður atvinnulaus stendur hreinlega oft höllum fæti í því að leita sér að vinnu. Það er einhvern veginn þannig að vinnumarkaðurinn tekur þeim aðilum ekki vel og þess vegna er það mjög mikilvægt að það sé búið til plan, einhverjar áætlanir um að auðvelda slíku fólki að fá vinnu.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta séu nokkur helstu stóru efnisatriðin sem ég vildi koma inn á í ræðu minni við þessa umræðu. Ég árétta að í meðförum þingsins voru auðvitað gerðar miklar breytingar á frv. Og það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að þær breytingar eiga m.a. rætur sínar að rekja til samráðs hæstv. félmrh. og fulltrúa ríkisstjórnarinnar við Alþýðusamband Íslands, verkalýðshreyfinguna. Niðurstaðan af því samráði eru m.a. þær brtt. sem hér líta dagsins ljós. En ég held hins vegar að það sé óþarfi að menn kippi sér mikið upp við þetta og ég bendi á það í þessu sambandi að margar þær brtt. sem líta hér dagsins ljós af hálfu meiri hluta félmn. eru brtt. sem má segja að séu stuðningur við sjónarmið sem m.a. minni hlutinn hefur sett fram. Við getum því út af fyrir sig sagt sem svo að þetta sé afrakstur af þeirri umræðu sem fram hefur farið og m.a. líka samráði við verkalýðshreyfinguna og Alþýðusamband Íslands alveg sérstaklega.

Virðulegi forseti. Þingið hefur unnið að þessu máli og ber hina pólitísku ábyrgð á því og það er mjög þýðingarmikið að árétta að það er meiri hluti nefndarinnar og væntanlega meiri hluti Alþingis sem mun standa að þessu máli og hlýtur að bera hina pólitísku ábyrgð þrátt fyrir það að verulegt samráð hafi átt sér stað, og það skiptir mjög miklu máli að hafa í huga í framhaldi af þeirri umræðu sem hér átti sér stað, og ég tel að hafi átt fullan rétt á sér, um afskipti aðila vinnumarkaðarins og ýmissa aðila úti í bæ af lagasetningunni í landinu. En þetta er vandmeðfarið mál. Alþingi má hins vegar ekki heldur líta þannig á að það geti unnið í einhverju tómarúmi án þess að heyra eða hlusta á það sem fólkið í landinu er að segja og fulltrúar þess og hagsmunasamtök þess þó að það sé þannig að Alþingi, sem sjálfstæð löggjafarsamkoma, hljóti alltaf í lok dagsins að bera hina endanlegu ábyrgð.