Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:22:48 (3931)

1997-02-25 18:22:48# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:22]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður undraðist það að stjórnarandstaðan skyldi ekki vera samþykk frv. um vinnumarkaðsaðgerðir bara af því að ASÍ og BSRB skrifuðu upp á það mál. Það kom fram við 1. umr. um bæði þessi mál að stjórnarandstaðan gagnrýndi þau bæði harðlega. Síðan hafa orðið miklar breytingar á frv. um atvinnuleysistryggingar. Flestar þær breytingar munum við styðja en það er samt ýmislegt eftir í frv. Hitt frv. er hins vegar meira og minna óbreytt og sú gagnrýni sem kom fram við 1. umr. stendur enn. Við tökum málefnalega afstöðu til þessara frv. og gildir þar einu hvort ASÍ eða BSRB eru með eða á móti. Hitt er annað mál að það er eðlilegt, og ég tek undir það með hv. þm., að hafa samráð við ýmsa aðila. Þessir aðilar áttu sæti í þeirri nefnd sem samdi frumvörpin, annað málið endaði með klofningi en um hitt varð samkomulag og það er einfaldlega þeirra mál, enda erum við sjálfstæðir aðilar hér á hinu háa Alþingi.

Annað mál langar mig að taka upp af því sem fram kom í ræðu þingmannsins og það var vegna þess að hann vitnaði til þess sem ég sagði fyrr í dag um margfalt kerfi. Ég skil það svo að það eru í gildi lög um reynslusveitarfélög. Það hafa verið gerðir sérstakir samningar við ákveðin sveitarfélög um meðferð ýmissa mála, Reykjavík, Hafnarfjörð, Akureyri og Reykjanesbæ, m.a. um meðferð atvinnuleysismála. Samkvæmt þeirri brtt. sem hér er lögð fram haggast þessir samningar ekki þannig að ég skil það svo að það verði svolítið annað kerfi þar í gangi. Ég þarf að vísu að átta mig betur á því hversu langt það nær og að hve miklu leyti þessi reynslusveitarfélög þurfa að lúta þessum nýju lögum, ég átta mig ekki alveg á þessu en það er alla vega ljóst að þeir sérsamningar sem hafa verið gerðir um skráningu og fleira verða í gildi. (Forseti hringir.) Því stendur niðurstaða mín eftir sem áður að þetta verður ekki samfellt kerfi. En ef meiri hlutanum finnst það í lagi þá er það þeirra skoðun, ég er á annarri skoðun.