Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:30:04 (3934)

1997-02-25 18:30:04# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:30]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf kannski ekki að hafa mörg orð um þetta. Mér heyrist að við hv. þm. séum ótrúlega sammála um spurninguna um samráð við gerð lagafrv. og lagasetningu þegar grannt er skoðað. Við erum bæði þeirrar skoðunar að í lok dagsins sé það Alþingi sem beri hina endanlegu ábyrgð. Ég hef lagt á það mikla ábyrgð og gerði það m.a. þegar við vorum að ræða svipuð mál á síðasta ári þegar ræddar voru mjög svipaðar spurningar. Einmitt um það hversu langt menn ættu að ganga í þessu samráði. Hvort lagasetningin ætti yfir höfuð að vera til o.s.frv. Ég var þá og er reyndar enn þá mjög eindregið þeirrar skoðunar að Alþingi verði að kveða upp úr um þetta, taka af skarið og axla sína ábyrgð. Hins vegar er hitt bara skynsamlegt og eðlilegt og sjálfsagt í ,,plúralísku`` þjóðfélagi, eins og það er kallað, að menn leiti eftir samráði sem víðast í þjóðfélaginu. Hins vegar getur samráð þýtt, og þýðir það oftast nær, að fram koma mismunandi sjónarmið. Og það er á grundvelli þessara mismunandi sjónarmiða sem löggjafinn verður síðan að taka afstöðu sína og komast að niðurstöðu. Á það legg ég mikla áherslu og við getum auðvitað ekki leyft okkur að láta hagsmunasamtök segja okkur fyrir verkum en við getum hugsanlega komist að sameiginlegri niðurstöðu með slíkum samtökum ef við teljum það skynsamlegt, ef við teljum að í því felist meiri hagsmunir en minni eins og hér var sagt fyrr í dag. Þannig hefur þetta verið gert. Ég tel ekki að Alþingi sé á nokkurn hátt að afsala sér réttindum sínum eða möguleikum til að móta niðurstöðuna. Það er ákvörðun Alþingis hverju sinni hversu langt gengið er í slíku samráði. En aðalatriðið er að það sé til staðar einhver samráðsvettvangur og það eru m.a. þingnefndirnar, en síðan er það Alþingi, málstofan, sem tekur hina endanlegu niðurstöðu og það munum við gera að lokinni þessari umræðu.