Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:50:28 (3936)

1997-02-25 18:50:28# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:50]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Dagur er að kveldi kominn og þessari umræðu fer væntanlega að ljúka. Ég boðaði það fyrr í dag að ég mundi taka aftur til máls og ræða ögn um atvinnuleysistryggingafrumvarpið. Það eru aðeins örfá atriði sem ég hef við þessa umræðu að bæta eða vil ítreka og spurningar til hæstv. félmrh. Ég harma að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa látið sjá sig við þessa umræðu. Ég bað um að hann yrði sóttur. Hann hefur ekki komið hingað en 3. umr. er eftir þannig að það á kannski eitthvað eftir að skýrast betur hver sjónarmið Sjálfstfl. eru, ekki síst varðandi þennan verkefnatilflutning á milli ríkis og sveitarfélaga sem hér stefnir í þveröfuga átt.

Hæstv. forseti. Það hefur verið vakin athygli á því að í fskj. með nál. minni hluta eru birtar mjög athyglisverðar upplýsingar um atvinnuleysi. Ég held einmitt að sú leið sem við þurfum að fara til þess að vinna bug á atvinnuleysinu, eftir því sem það er hægt, sé að greina atvinnuleysi sem allra best, reyna að átta sig á því hvaða hópar það eru sem eiga við atvinnuleysi að stríða, eftir aldri, eftir kyni, eftir atvinnugreinum. Því það eru fyrst og fremst þær upplýsingar sem geta sagt okkur hvert þurfi að leita eftir úrbótum og hvað helst megi verða til þess að draga úr atvinnuleysi.

Ég hef vikið að því nokkrum sinnum í umræðum í vetur og reyndar í fyrra líka að ég hygg að við séum komin hér með það ástand sem hefur einkennt flest ríki Evrópu og reyndar flest ríki hins vestræna heims, að það hefur verið viðvarandi atvinnuleysi í þessum ríkjum, að vísu mjög mismunandi mikið. Síðustu tölur sem ég sá frá Evrópusambandinu sögðu að þar væri að meðaltali um 11% atvinnuleysi. Við vitum að það er mjög mismunandi eftir löndum og eftir svæðum, þar er t.d. Spánn með einna verst ástand, á ákveðnum svæðum þar í landi, gríðarlegt atvinnuleysi. En síðan standa önnur ríki sig miklu betur og í Bandaríkjunum er talað um 5% atvinnuleysi, að talan fari hreinlega ekki niður fyrir það, og skýringin á því sé alveg gríðarleg hreyfing á vinnuaflinu í Bandaríkjunum, óvenjumikil hreyfing. Þar tíðkast það að fólk er mjög iðið við að flytja sig á milli starfa og þar af leiðandi mikill fjöldi sem er tímabundið skráður atvinnulaus. Þannig að þeir tala um u.þ.b. 5% atvinnuleysi sem það sem má eiginlega ekki segja: ,,eðlilegt`` atvinnuleysi. Þetta er umdeilt atriði en svo virðist sem breytingar á vinnumarkaði, tæknibreytingar og slíkt hafi haft það í för með sér á síðustu áratugum að það sé viðvarandi atvinnuleysi þrátt fyrir jafnvel mikla atvinnusköpun eins og t.d. er í Bandaríkjunum. Ég gæti dregið greinar upp úr pússi mínu þar sem verið er að bera saman ástandið í Bandaríkjunum annars vegar og í Evrópu hins vegar og hvernig gangi að skapa ný störf en þar eiga Bandaríkin algjörlega vinninginn.

Allar tölur sem við höfum hér á landi um atvinnuleysi sýna að atvinnuleysi er mun meira meðal kvenna en karla og mun meira hér á suðvesturhorninu en úti á landi, en það kann að vera að það sé alltaf töluverður tilflutningur af fólki utan af landi og hingað. Í það minnsta segja sveitarstjórnarmenn hér á suðvesturhorninu að þeir sem sjá fram á það að missa vinnuna eða hafa misst vinnuna úti á landsbyggðinni flytji gjarnan í þéttbýlið þar sem um betri félagslega þjónustu er að ræða.

Það er líka mjög athyglisvert vegna þeirrar umræðu og vegna þess frv. sem hér er til umræðu að skoða tölurnar frá Reykjavík um þá sem búa við langtímaatvinnuleysi. Því miður virðist sem statt og stöðugt hafi fjölgað í þeim hópi sem hefur verið atvinnulaus í ár eða lengur. Þetta er atriði sem þarf að gefa sérstakan gaum vegna þess að hér er meiningin að setja í lög að fólk missi allan rétt eftir fimm ára atvinnuleysi. Þetta er það atriði sem enn stendur eftir í þessu frv. sem ég er algjörlega andvíg.

Fleira mætti nefna sem tengist atvinnuleysinu og þá enn eitt atriði sem hér kemur fram sem er það hversu margir eru utan stéttarfélaga og án bóta. Þann 30. nóv. 1996 voru alls 433 einstaklingar á skrá hjá Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar sem voru utan stéttarfélaga og án bóta. Og þar við bætast eflaust fjöldamargir sem ekki skrá sig. Þetta er hópur sem virkilega þarf að gefa gaum.

Það er eitt atriði sem einkennir það frv. sem hér er til umræðu og var reyndar mikið rætt við 1. umr. og það varðar þá sem segja sjálfir upp störfum. Þeir eru beittir refsingum sem reyndar er heldur dregið úr hér í þessu frv., refsidögum fækkað út 55 í 40 eins og þeir eru í núgildandi lögum. En ég vil vekja sérstaka athygli á því að í þeim tölum sem er að finna í þessari skýrslu Vinnumiðlunar Reykjavíkurborgar kemur fram og það er vakin athygli á því að þeim konum fjölgar sem eru atvinnulausar vegna eigin uppsagnar. Þetta finnst mér vera atriði sem þarf að skoða alveg sérstaklega. Hvernig stendur á þessu? Þetta er aukning úr 11% í nóvember 1994 upp í 16% í nóvember 1996. Þetta er töluverð fjölgun og maður spyr sig: Hvað er þarna á ferð og hversu réttlætanlegt er að beita fólk refsingum sem segir upp störfum því ástæður fyrir uppsögnum kunna að vera margvíslegar og ekki alltaf hægt að láta í ljós hvað þar kann að liggja að baki.

Eitt atriði hefur því miður verið ákaflega lítið rætt í þessari umræðu í dag og það er það atriði að taka fulltrúa Alþingis út úr stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Nú kann vel að vera að það sé samkomulag um það, menn séu almennt á því að Alþingi eigi ekki að vera í eftirlitshlutverki í þessum sjóði eða vera að taka ákvarðanir sem að honum snúa. En það hefur nákvæmlega engin umræða átt sér stað um þetta atriði, þ.e. hvar eiga fulltrúar Alþingis heima í ákveðnu eftirlitshlutverki og hvar ekki? Hver á stefnan að vera? Það er alveg greinilegt að stefna ríkisstjórnarinnar er að taka þessa fulltrúa út og þá hlýtur maður auðvitað að spyrja: Hvað verður um eftirlitshlutverkið? Hver verður aðstaða Alþingis til þess að fylgjast með? Vil ég taka það skýrt fram að ég tel að mjög víða sé rík og fullkomin ástæða til þess að fulltrúar Alþingis sitji ekki í stjórnum og sérstaklega eiga alþingismenn alls ekki að vera í sjóðum og bankaráðum og annars staðar þar sem menn eru að setjast beggja vegna borðsins. En hver á stefnan í þessum málum að vera? Ég sakna þess mjög að sáralítil umræða hefur átt sér stað um þetta atriði.

[19:00]

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vil ég víkja að þeim brtt. sem liggja fyrir um þetta frv. Eins og fram hefur komið erum við stjórnarandstæðingar fylgjandi flestum þeirra vegna þess að þær eru yfirleitt til bóta og það er verið að hverfa til fyrra horfs en það þýðir að niðurstaðan af öllu þessu starfi er sú að umbæturnar eru nánast engar. Þær eru bara engar og það er það sorglega í þessu máli. Hér hefur verið dregin fram skýrsla frá árinu 1994, vel unnin og góð skýrsla, henni er hent út í horn. Það kemur nýr ráðherra sem setur nýjan hóp á laggirnar, frá þeim hópi kemur svo vitlaust frv. að allt ætlar um kolla að keyra, ráðherrann bakkar með allt saman og niðurstaðan er nákvæmlega núll, engar umbætur. Reyndar sitja eftir ófullkomin lög með leiðinlegan anda og reyndar ákvæði sem við stjórnarandstæðingar getum ekki fellt okkur við eins og fimm ára regluna. Þá er verið að festa í lög þessa reglu um starfsmenntasjóðinn og framlögin til atvinnumála kvenna sem við áttum í harðri rimmu um fyrir jól og eiga ekki heima hér. Starfsmenntun í atvinnulífinu og stuðningur við atvinnusköpun eru ekki atvinnuleysismál. Þetta eru sérstök mál sem á að tengja við nýsköpun og menntakerfið almennt og þarf að vera einhver heildarsýn yfir en ekki að troða þessum verkefnum inn á Atvinnuleysistryggingasjóð. Svo þurfti auðvitað líka að bjarga kjararannsóknarnefnd, sem hafði gleymst, og sjá til þess að einhvers staðar væri hægt að sækja í einhverja sjóði til að halda henni uppi en meiningin er að flytja hana út úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Að lokum, herra forseti, er það 16. brtt. á þskj. 654:

,,Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skal heimilt á árinu 1997 að gera tillögu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað.``

Þetta er tillaga sem hefur verið flutt ár eftir ár og ég spyr hvort ekki sé verið að breyta hér kerfinu. Er ekki verið að flytja þessi verkefni frá sveitarfélögunum til ríkisins? Er það meiningin að sveitarfélögin verði áfram með átaksverkefni? Ég stóð í þeirri meiningu eftir alla þessa umræðu og alla þessa vinnu að það væri verið að setja á laggirnar svæðisvinnumiðlanir sem hefðu það hlutverk að koma á úrbótum. Hvað er þetta að gera hér? Á þessi stofnun og þetta batterí ekki að taka til starfa á miðju ári? Eiga sveitarfélögin sem sagt að vera í þessu áfram eða hver er meiningin? Það er nú einu sinni svo, hæstv. forseti, að mér finnst þetta svo mikil hringavitleysa að það er varla að maður nenni að eyða fleiri orðum á þetta enda veit ég að sumir bíða hér óþreyjufullir eftir því að komast í önnur mál. Þetta eru vanhugsuð og illa undirbúin frv. og ég harma það, hæstv. forseti, að við skulum fá svona illa unnin mál. Ég get ekki stillt mig um að vitna hér í sama plagg og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vitnaði til áðan þar sem starfsmenn félmrn. voru að svara skriflega spurningum frá nefndarmönnum í félmn. og sem snertir reyndar vinnumarkaðsfrv. og svæðisvinnumiðlanirnar. Það segir í svarinu, með leyfi forseta:

,,Fyrir liggur að svæðisvinnumiðlanir geta samkvæmt frumvarpinu gert samning við sveitarfélag sem aðra um skráninguna.`` Það er heimildin sem var að finna í frv. en ráðherrann og fleiri túlkuðu sem heimild til að semja um allt milli himins og jarðar. Svo segir í framhaldinu: ,,Ekki er útilokað að svæðisvinnumiðlun mundi gera samning við sveitarfélag um aðra þætti eins og t.d. vinnumiðlun. Í það minnsta eru engin ákvæði í frv. sem banna slíkt.`` Enda eru engin ákvæði í frumvörpunum sem banna slíkt. Það er verið að skilgreina í lögum hver eru verkefni vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana og svo segja þeir að það sé ekkert sem bannar að semja um eitthvað annað. Það er búið að skilgreina verkefnin í lögum og það er ekki heimilt að flytja verkefni til annarra stofnana nema fyrir því sé stoð í lögum. Það eru starfsmenn ráðuneytis félagsmála sem senda svona nokkuð frá sér. Þetta þykir mér sorglegt, hæstv. forseti. En hvað um það, sú spurning sem eftir stendur hjá mér eftir þetta allt saman er sú að það væri gaman að fá upplýst hvað stendur eftir af þeim sparnaði sem átti að ná með þessu öllu saman. Hversu mikill sparnaður af þessum 128 millj. kr. sem átti að nást með þessum breytingum stendur eftir? Ég hygg að það sé harla lítið og ég efast reyndar um að hæstv. félmrh. geti upplýst það hér og nú.

Allra síðast, hæstv. forseti, vil ég segja að það hefur að mörgu leyti verið mjög fróðlegt að vinna við þessi mál. Það hefur verið mjög fróðlegt og við sem eigum sæti í félmn. höfum fengið gott tækifæri til að kynna okkur rækilega nánast allar hliðar þessara mála. Það sem hefur vakið einna mesta athygli mína og vakið mig til umhugsunar er það sem fram hefur komið um afstöðu bæði stjórnvalda og kannski ekki síst vinnumarkaðarins til hinna atvinnulausu og kannski ekki síður til þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur á vinnumarkaði. Við fengum í okkar hendur og var sagt frá ýmsum dæmum, m.a. dæmum um fólk sem hefur lagt það á sig á miðjum aldri að endurmennta sig, jafnvel taka háskólapróf, og kemur síðan út á vinnumarkaðinn og fær enga vinnu vegna einhverra furðulegra hugmynda um hvað sé æskilegt vinnuafl. Þetta á ekki síst við um konur. Mér finnst þetta afar umhugsunarvert og líka dæmi um það að þegar vinnuveitendur komast að því að einhver sem er að sækja um vinnu hjá þeim er á atvinnuleysisskrá þá er hann bara útilokaður samstundis. Fólki er ekki gefið tækifæri. Þessi viðhorf eru mjög alvarleg og ég held að þetta sé mál sem þurfi að taka á og vinna að viðhorfsbreytingu. Við erum að tala um afleiðingar samdráttar, tæknibreytinga og ýmislegs sem hefur verið að gerast í okkar þjóðfélagi sem veldur því að fólk missir vinnu eða fær ekki vinnu jafnvel nýkomið úr námi. Það er hörmulegt ef viðhorfin eru svo forneskjuleg að fólk er hreinlega dæmt til atvinnuleysis vegna ríkjandi fordóma. Það er skylda okkar á hinu háa Alþingi vegna framtíðarinnar, vegna samfélags okkar og vegna þeirrar skyldu að skapa betra þjóðfélag að vinna gegn þessum fordómum. Ég er viss um að margt er hægt að gera til að breyta ríkjandi viðhorfum.