Vísitölubinding langtímalána

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:43:43 (3947)

1997-02-26 13:43:43# 121. lþ. 78.1 fundur 269. mál: #A vísitölubinding langtímalána# fsp. (til munnl.) frá forsrh., PHB
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Stjórnvöld þurfa að hafa hugrekki til að treysta borgurunum fyrir fjármálum sínum. Það segi ég við ræðu síðasta hv. þm. Það sýnir sig að raunvextir af verðtryggðum lánum hafa síðustu fimm til sex árin ætíð verið lægri en raunvextir af óverðtryggðum lánum. Það er skuldurunum til hagsbóta að verðtryggingin sé í gildi en ekki öfugt.

Það hefur komið fram í ræðum þingmanna hér á undan að skuldir heimilanna hafi aukist. Það er innbyggt inn í skattkerfið. Það að menn geti dregið vexti frá skatti og vaxtabæturnar hvetur menn til skulda og það er innbyggt inn í skattkerfi okkar að fólk skuldi sífellt meira og meira.