Vísitölubinding langtímalána

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:44:49 (3948)

1997-02-26 13:44:49# 121. lþ. 78.1 fundur 269. mál: #A vísitölubinding langtímalána# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:44]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft stórmáli. Lánskjaravísitalan er alltaf spurning. Auðvitað er það aðalatriðið sem þarf að skoða hvort hún er rétt mæld. Það leikur grunur á að vogin sé skökk, byggingarvísitalan komi þar rangt inn þannig að þarna sé ekki rétt mæling.

Ég álít að verðtrygging á húsnæðislánum sé mikil tímaskekkja og þekkist raunar hvergi í veröldinni. Unga fólkið stendur frammi fyrir því að fá 70--75% húsnæðislán verðtryggð. Einn daginn verður verðfall á markaðnum og þá standa skuldirnar upp úr þakinu. Svona kjör býður engin þjóð sinni æsku í víðri veröld.

Hitt er svo stærsta málið, hæstv. forsrh., að lækka vexti. Ég hef orðið vitni að því að hæstv. fjmrh. hefur tekið ofurstana á Íslandi, þessa fimm menn sem ráða vaxtastiginu á Íslandi, til bæna og sagt: Ef þið kaupið ekki á 5% ríkisbréfin, þá er ég farinn á erlendan markað. Þeir keyptu. Þeir eru komnir upp í 7--8% á nýjan leik. Það er stærsta hagsmunamál fyrir íslenskt atvinnulíf og almenning að nú, þegar boðuð eru hallalaus fjárlög, verði á nýjan leik tekið á peningaofurstunum á Íslandi sem ráða vaxtastiginu. Þar eru verkalýðsforingjar, þar eru atvinnujöfrar og þar eru einstaklingar sem eiga mjög mikla peninga. Við þurfum að taka á þessum aðilum.