Öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:51:55 (3952)

1997-02-26 13:51:55# 121. lþ. 78.2 fundur 279. mál: #A öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég ber fyrirspurn fram við hæstv. forsrh. um öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi. Hún er í tveimur liðum og svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Hefur farið fram úttekt á því hvernig best verði að því staðið að tryggja öryggi þeirra mörgu sem fara munu um Skeiðarársand á þessu ári, m.a. til að skoða minjar um stórhlaupið í nóvember 1996?

2. Til hvaða aðgerða er talið rétt að grípa af stjórnvalda hálfu í þessu sambandi og hverjir munu skipuleggja þær og bera á þeim ábyrgð?

Tilefni fyrirspurnarinnar eru þær aðstæður sem skapast hafa á Skeiðarársandi í kjölfar stórhlaupsins 5.--7. nóv. sl. Fullvíst má telja að þangað leiti fjöldi ferðamanna, innlendra og erlendra, á þessu ári í meiri mæli en verið hefur vegna náttúruhamfaranna. Það er ekkert nema gott um það að segja og einmitt slíkir atburðir eiga mikinn þátt í aðdráttarafli lands okkar gagnvart útlendingum. Að hinu þarf jafnframt að hyggja að sem best sé gætt upplýsinga um þær hættur sem víða geta leynst á svæði sem vatnsflaumur fór yfir með jakaburði og kynstrum af aur sem og við jökulrönd og á sjálfum Skeiðarárjökli.

Það er alþekkt frá fyrri tíð að Skeiðarársandur og vötnin þar voru oft ófær um lengri tíma í kjölfar slíkra hlaupa sem best sést á því að krækt var fyrir upptök Skeiðarár á jökli oft langtímum saman, einkum að sumarlagi. Áður fyrr ferðuðust menn oftast af nauðsyn en nú eru skemmtiferðir og skoðun landsins erindi meiri hluta fólks að sumarlagi. Fyrritíðarmenn þekktu allvel til aðstæðna en nú kemur á vettvang fjöldi fóks til að svala forvitni sinni alls óvant svörtum sandi með sandbleytur, ísjaka og jakahvörf.

Heimamenn hafa af þessu nokkrar áhyggjur. Ferðafélag Austur-Skaftafellssýslu ræddi og ályktaði um málið á aðalfundi sínum laugardaginn 15. febr. sl. og beindi þeim óskum til yfirvalda ferða- og samgöngumála auk Almannavarna ríkisins að vinnu við skýrslugerð og tillögur að öryggi ferðafólks á Skeiðarársandi verði hraðað. Við þá vinnu verði heimamenn hafðir með í ráðum. Nauðsyn ber til að gripið verði til varúðarráðstafana á sandinum á allra næstu dögum, segir í ályktun fundar Ferðafélags Austur-Skaftafellssýslu.

Ég valdi, virðulegur forseti, að beina fyrirspurn minni til hæstv. forsrh. þar eð málið er margþætt og snertir málasvið margra ráðuneyta auk stjórnvalds í héraði og áhugamannasamtök svo sem björgunarsveitir.