Öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:54:40 (3953)

1997-02-26 13:54:40# 121. lþ. 78.2 fundur 279. mál: #A öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur borið fram svohljóðandi fyrirspurn um öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi:

1. Hefur farið fram úttekt á því hvernig best verði að því staðið að tryggja öryggi þeirra mörgu sem fara munu um Skeiðarársand á þessu ári, m.a. til að skoða minjar um stórhlaupið í nóvember 1996?

2. Til hvaða aðgerða er talið rétt að grípa af stjórnvalda hálfu í þessu sambandi og hverjir munu skipuleggja þær og bera á þeim ábyrgð?

Samkvæmt upplýsingum Almannavarna ríkisins hafa Almannavarnir í samvinnu við lögreglustjórann í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum unnið að gerð tillagna um hvernig best verði staðið að viðvörun til almennings vegna þeirrar hættu sem kann að steðja að ferðamönnum á Skeiðarársandi. Lagðar hafa verið fyrir almannavarnaráð tillögur um málið og voru þær samþykktar á fundi ráðsins hinn 23. jan. sl. Almannavarnir ríkisins telja rétt að eftirfarandi aðgerðir komi til framkvæmda og eru að vinna að þeim:

1. Að komið verði upp í samráði við sýslumenn áberandi skiltum við þjóðveg 1 beggja vegna Skeiðarársands þar sem fram komi upplýsingar um eðli og umfang þeirrar hættu sem ógnar öryggi ferðafólks á sandinum.

2. Að komið verði fyrir smærri aðvörunarskiltum við þá vegarslóða sem liggja af aðalvegi út á sandinn.

3. Vegaverkstjórum og lögreglumönnum verði falið að skoða svæðið og að ákveða staðsetningu ofangreindra skilta.

4. Tekinn verði saman einblöðungur í samráði við sýslumenn þar sem fram komi helstu upplýsingar um umrædda hættu, hvað beri að varast, helstu símanúmer og þess háttar. Einblöðungur þessi verði gefinn út á íslensku, ensku, þýsku og frönsku.

Þá er við þessar upplýsingar að bæta að Vegagerð ríkisins mun eiga samstarf við framangreinda aðila og verður leitast við að tryggja að öllum ferðamönnum verði gerð ljós sú hætta sem kann að steðja að fólki á ferð um það svæði sem hér um ræðir.