Aðbúnaður Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:17:47 (3963)

1997-02-26 14:17:47# 121. lþ. 78.5 fundur 368. mál: #A aðbúnaður Ríkissjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Svanhildur Kaaber):

Hæstv. forseti. Fjölmiðlun, starfsaðstaða fjölmiðla og stjórnun hefur verið mikið til umræðu undanfarna daga og ekki að tilefnislausu. Fréttir liðinnar viku um sameiningu einkareknu sjónvarpsstöðvanna og þá staðreynd að með henni flyst stjórn annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins á fárra manna hendur gefur sannarlega tilefni til þess að hafa áhyggjur af samþjöppun valds, eignarhalds og áhrifa í heimi fjölmiðlanna og þeirra eignalegu tengsla sem nú hafa skapast milli allra fjölmiðla á landsvísu utan Ríkisútvarpsins og ríkissjónvarpsins. Sé litið til svars hæstv. menntmrh. við fyrirspurn hv. 8. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, sem dreift var hér á Alþingi nýlega verður manni síður en svo rórra. Í svarinu kemur fram að aðeins um það bil þriðjungur íslensks dagskrárefnis ríkissjónvarpsins er íslenskt efni og nálægt fjórðungur þess er fréttir, fréttatengt efni og íþróttir. Íslenskt efni á einkareknu stöðvunum sem nú hafa verið sameinaðar nær ekki einu sinni að vera samtals jafnmikið og það þó er nú hjá ríkissjónvarpinu.

Öllum er ljóst hve mikilvægur og sterkur miðill sjónvarpið er. Þeir sem velta fyrir sér nútíð og framtíð íslenskrar menningar hljóta einnig að hugleiða hvernig hægt er að styrkja ríkissjónvarpið og búa því þannig starfsaðstæður að það geti sinnt sínu mikilvæga hlutverki betur en nú er, sérstaklega með tilliti til innlendrar dagskrárgerðar. Til þess er einlægur vilji og metnaður innan stofnunarinnar og til þess eru reyndar ágæt tækifæri ef menn vilja sameinast um að nýta þau.

Þegar hönnun útvarpshússins í Efstaleiti hófst árið 1972 var gengið út frá því að öll starfsemi Ríkisútvarpsins yrði flutt undir sama þak. Útvarpshúsið er alls um 16 þúsund fermetrar. Um það bil 5.000 fermetrar standa þar ónotaðir til viðbótar við það húsnæði sem sjónvarpið þegar nýtir í Efstaleitinu. Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að starfsemi sjónvarpsins verði þarna og lagt í umtalsverðan kostnað, eða 600--800 millj., sem verða til einskis ef þessi starfsemi verður ekki flutt í Efstaleiti. Núverandi húsnæði sjónvarpsins er að mörgu leyti óhentugt, þarf mikið viðhald og lagfæringar, og t.d kemur fram í upplýsingum fjármáladeildar Ríkisútvarpsins að viðhaldskostnaður þar miðað við fermetra er um það bil sex sinnum meiri en í Efstaleiti. Auk þess er það ófullnægjandi og fyrir ýmis verkefni verður að leigja húsnæði úti í bæ.

Fjölmargar nefndir hafa fjallað um rekstur Ríkisútvarpsins á undanförnum árum. Niðurstöður þeirra, skýrslur og kannanir eru allar hinar sömu. Mikil hagkvæmni fælist í því að sameina rekstur útvarpsdeildanna og flytja í Efstaleiti. Samkvæmt upplýsingum fjármáladeildar Ríkisútvarpsins mundi þar sparast um 50 millj. árlega sem mætti nýta til að styrkja íslenskra dagskrárgerð. Ég spyr því menntmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því að starfsemi sjónvarpsins verði flutt í útvarpshúsið í Efstaleiti. Ef menntmrh. hyggst ekki beita sér fyrir flutningi á næstu árum, hvernig verður þá bætt aðstaða og tækjabúnaður sjónvarpsins og hvernig auknir möguleikar þess til að sinna menningarhlutverki sínu, einkum innlendri dagskrárgerð?