Aðbúnaður Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:25:17 (3966)

1997-02-26 14:25:17# 121. lþ. 78.5 fundur 368. mál: #A aðbúnaður Ríkissjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:25]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég get nú ekki tekið undir með síðasta hv. þm., Merði Árnasyni, en ég vil nota tækifærið og þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir að bera þessa fyrirspurn upp.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að ég á sæti í útvarpsráði og er aðili að þeirri bókun sem hér var lesin áðan. Sannleikurinn er sá að Ríkisútvarpið hefur staðið sig nokkuð vel í að koma fjármálum sínum í horf á sl. ári. Auðvitað er það hárrétt sem hv. þm. Mörður Árnason sagði hér áðan að það hefur ekki tekist nema með niðurskurði. Hitt er annað mál að það er auðvitað óviðunandi að 5.000 fermetrar skuli standa ónotaðir á meðan sjónvarpið leigir húsnæði úti í bæ, eins og það gerir t.d. undir framleiðsluna á Dagsljósi. Það nær auðvitað engri átt. Og það sem útvarpsráð horfir fram á núna er að fá niðurstöðu nefndar eða starfshóps sem fenginn var til að fara yfir rekstur Ríkisútvarpsins ásamt starfsmönnum. (Forseti hringir.) Við væntum þess að fá niðurstöður úr þeirri vinnu mjög fljótlega, en ég vil taka það fram að ég sé ekki að þær hrakspár sem hv. þm. Mörður Árnason hafði hér í frammi eigi við rök að styðjast. Ég hef enga ástæðu til að halda að hæstv. menntmrh. (Forseti hringir.) sjái helst fyrir sér að ganga af Ríkisútvarpinu dauðu, ég held að það sé ekki rétt, og því síður virðulegur formaður útvarpsráðs sem við höfum öll átt ágætt samstarf við og ég held að við eigum það öll sameiginlegt að hafa uppi töluverðan metnað fyrir hönd Ríkisútvarpsins.