Aðbúnaður Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:27:55 (3968)

1997-02-26 14:27:55# 121. lþ. 78.5 fundur 368. mál: #A aðbúnaður Ríkissjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Svanhildur Kaaber):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að bregðast við spurningu minni og þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir það sem þeir hafa lagt inn í þessa umræðu, en ég verð að viðurkenna að ég hafði satt að segja vonast eftir því að svör hæstv. menntmrh. við spurningunni yrðu skýrari heldur en ég skildi þau.

Mér finnst ákaflega alvarlegt að vita til þess að ríkissjónvarpið skuli búa við jafnþröngan kost og það gerir þegar allt tilefni er til að flytja starfsemi þess í mjög gott húsnæði og búa því góðar starfsaðstæður inni í Efstaleiti. Og ég verð að segja að ekki síst finnst mér fréttir úr fjömiðlaheiminum síðustu daga, eins og ég vék að í upphafi, gefa tilefni til þess að það er ákaflega nauðsynlegt og verður mikilvægara með hverjum deginum sem líður.

Það er mikið talað um hagræðingu í rekstri og hagkvæmni og þess háttar. Það eru ákaflega vinsæl hugtök núna og mikil áhersla lögð á að unnið sé samkvæmt slíkum viðhorfum, t.d. í skólastofum og á spítölum, og mér finnst full ástæða til þess að beita þeim einmitt líka, hagræðinu og hagkvæmninni, í sambandi við mál eins og málefni Ríkisútvarpsins. Eins og vikið var að hér áðan standa rúmlega 5.000 fermetrar ónotaðir inni í Efstaleiti með þeim beina kostnaði sem því fylgir auðvitað. Ljóst er að um 50 millj. árlega mundu sparast við að sameina rekstur Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins og flytja starfsemina í Efstaleiti og það er ljóst að þá mundu líka nýtast þær 600--800 millj. sem þegar hafa verið lagðar í að útbúa aðstöðu fyrir sjónvarpið í Efstaleitinu. Mér finnst þess vegna fá önnur verkefni brýnni (Forseti hringir.) heldur en einmitt þessi og ég vona að það komi til að það verði gert áður en mjög langt um líður og að starfsemi ríkissjónvarpsins verði styrkt þannig að hún geti tekist á við það sem horft er fram á einmitt núna þessa daga.