Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:43:32 (3974)

1997-02-26 14:43:32# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:43]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Við alþýðubandalagsmenn höfum áður og m.a. sú sem hér stendur gert fyrirspurnir um stöðu menntunarmála sjómanna og það hefur lengi verið ótrúlegt hvað lítill áhugi hefur virst vera einmitt á menntunarmálum þeirrar stéttar, sem vinnur þau störf sem við eigum allt undir. Ég held að það verði að viðurkennast að það var ekki af hinu góða að færa menntun sjómanna til annarra skóla en hins eina sanna stýrimannaskóla. Það hefði verið nær að byggja hann upp og halda honum við en ekki vanrækja hann eins og gert hefur verið.

Það er ágætt að heyra að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson veit núna það sem hann virtist ekki vita fyrir 2--3 árum að verið er að reka íslenska sjómannastétt til útlanda á erlend skip, sem hann mótmælti harðlega hér í þingsölum þegar því var haldið fram, en eftir stendur --- hér er enginn tími til þeirrar umræðu. Það er óþolandi að ekki verði þegar tekið á menntunarmálum sjómanna og raunar farið að endurheimta aftur heim til heimalandsins skip sem búið er að setja undir erlenda hentifána. Það er ekkert efnilegt (Forseti hringir.) að mennta sig til skipstjórnar á Íslandi þessa dagana.

(GHall: Ég ætla að fá að bera af mér sakir.)