Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:45:42 (3976)

1997-02-26 14:45:42# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Þó að þau séu mér auðvitað ekki öll að skapi, þá er alltaf gott að fá það á hreinskilinn hátt hvernig málin standa.

Það er örstutt síðan ég hafði samband við þá sem reka Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og þar virðist ekki vera samstaða um að færa þetta nám undir framhaldsskólann. Og hvort sem hæstv. ráðherra gefur mikið eða lítið fyrir þær staðreyndir að þeir sem hafa stundað sjó í mörg ár og hyggja á réttindanám fara síður inn í framhaldsskólana, þá er þetta staðreynd sem fram hefur komið aftur og aftur hjá þeim sem standa að rekstri stýrimannaskólanna.

Stýrimannaskólinn hér í Reykjavík og viðhald hans er í raun talandi dæmi þess hvernig hefur verið horft á mikilvægi þessa náms. Það hefur alltaf orðið út undan. Og það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að hér er stór útgerðarstaður í Reykjavík, það er alveg hárrétt. Þingmenn utan af landi gera sér fulla grein fyrir því hér er stór útgerðarstaður og langstærsti hluti Íslendinga býr einmitt á þessu svæði, og við gerum okkur fulla grein fyrir því. En við gerum okkur líka fulla grein fyrir því að nám í stýrimannaskóla getur og á alveg eins heima á útgerðarstöðum annars staðar.