Starfsemi og nám í stýrimannaskólum

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:50:13 (3978)

1997-02-26 14:50:13# 121. lþ. 78.6 fundur 372. mál: #A starfsemi og nám í stýrimannaskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHall (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:50]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi að gefnu tilefni vegna orða hv. 8. þm. Reykv. geta þess og minna á að 1980, þegar ég var formaður Sjómannfélags Reykjavíkur, voru margar samþykktir þess félags gerðar varðandi erlend leiguskip undir erlendum fána með erlendum áhöfnum. Við vöruðum við því að sú þróun mundi væntanlega ganga yfir að fiskiskip sæjust undir þægindafána.

Mér er minnisstætt að þá voru ekki miklar undirtektir við því og allt að því að gert væri grín að félögum Sjómannafélagsins fyrir að vara við þeirri þróun sem síðar hefur komið í ljós. Hv. 8. þm. Reykv. er nú að vaða eld og reyk þegar því er haldið hér fram í svo mikilli fjarstæðu að ég hafi ekki gert mér grein fyrir hvernig þróun þessara mála yrði. Ef eitthvað er þá held ég að ég hafi gert mér miklu betur grein fyrir því heldur en almennt hv. 8. þm. Reykv. Ég ber því þessar sakir af mér og vísa þeim alfarið til föðurhúsanna.