Miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:54:15 (3981)

1997-02-26 14:54:15# 121. lþ. 78.4 fundur 334. mál: #A miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet, en fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta, í þrem liðum:

1. Hver er staðan í miðlun EES-gerða á íslensku á vef alnetsins er varða íslenska löggjöf og reglugerðir, sem og gerðir sem eru á undirbúningsstigi gagnvart EES-ríkjum?

2. Hvenær er þess að vænta að allar slíkar gerðir verði fyrirliggjandi öllum aðgengilegar?

3. Hver er stefna ráðuneytisins um þýðingu á dómum Evrópudómstólsins og miðlun þeirra í tölvutæku formi á íslensku?

Það mál sem hér er spurt um skiptir mjög miklu fyrir möguleika almennings og raunar alþingismanna um leið til þess að fylgjast með og hafa áhrif á það sem nú mótar æ stærri hluta af íslenskri löggjöf, þ.e. ákvarðanir teknar á vettvangi Evrópusambandsins, stofnana þess og síðan í EES-kerfinu. Hér er um að ræða geysilega mikið efni sem skiptir tugþúsundum blaðsíðna eins og kunnugt er úr umræðum liðinna ára. Og þó að það sé nú fyrirliggjandi í prentuðu formi og hægt að fá það sem varðar liðna tíð, eins og samninginn sjálfan, sérrit EES-gerða, viðbótarpakkann af sérstakri útgáfu af EES-viðbæti og svonefndan EES-viðbæti svo að þetta sé nú upp talið, þá kostar þetta stórfé ef menn ætla að kaupa það í því formi. Ég hef aðeins gamlar tölur varðandi verðlagningu, kann að vera að verð hafi hækkað síðan eða lækkað, trúlega frekar hækkað, en þá kostaði sérrit EES-gerða ekkert minna heldur en 19.900 kr. Viðbótarpakkinn kostaði 17.100, samtals 37 þúsund íslenskar krónur. Og sjá menn þá hvers konar hindrun er hér á ferðinni til þess að komast yfir þessa hluti og hversu mikið hagsmunamál það er að fá þetta á tölvutæku formi inn á vef alnetsins þannig að það sé mönnum aðgengilegt og á það auðvitað að vera án kostnaðar.

Síðan er að geta um viðbæturnar. Ársáskrift kostar nærri 10 þús. kr., það kostar nærri 10 þús. að verða áskrifandi að viðbótunum svo að hér er ekkert lítið mál á ferðinni að því er varðar hagsmuni.

Varðandi dómstólinn sem vikið er að í lokin þá er alveg ljóst að allir dómar Evrópusambandsins varða mótun löggjafar, sbr. 6. gr. samningsins, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úskurð dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa.`` Allt safnið frá 1957 eða 1960, sem ekki hefur verið þýtt á íslensku nema í einhverjum útdráttum, er auðvitað brýnt að liggi fyrir á íslensku máli og öllum aðgengilegt. Ég vænti því skýrra svara, virðulegur forseti.