Miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:58:04 (3982)

1997-02-26 14:58:04# 121. lþ. 78.4 fundur 334. mál: #A miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Að því er varðar spurningu 1 og 2, þá hefur að undanförnu verið gerð á því forkönnun í utanrrn. hvort raunhæft væri að setja EES-samninginn í heild sinni á íslensku á vef alnetsins ásamt tilvísunum í íslensk lög og reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli hans. Við þessa könnun hefur verið haft samband við fjölda aðila en þegar var litið á þetta mál 1994 eftir því sem ég best veit, var ekki talið tæknilega gerlegt af ýmsum ástæðum að fara út í þessa hluti. Síðan hefur tækninni fleygt mjög fram þannig að niðurstaða þessarar könnunar er sú að þetta sé gerlegt en við vitum ekki hver kostnaðurinn er.

Í framhaldi af þessu skipaði ég nýlega nefnd sem hefur það hlutverk að kanna tæknilegar hliðar þessa máls og meta kostnað við að koma þessu í framkvæmd áður en endanleg ákvörðun verður tekin í málinu, en þá þurfum við að sjálfsögðu að hafa í huga kostnaðinn.

Nefndinni er einnig ætlað að gera framkvæmdaáætlun vegna verksins og er gefinn tiltölulega stuttur tími, en henni er ætlað að skila tillögum sínum eigi síðar en 1. maí nk. Formaður þessarar nefndar er Björn Friðfinnsson sem er sérstakur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í EES-málum.

Að því er varðar spurningu 3 þá hafa engar ákvarðanir verið teknar um það að þýða dóma Evrópudómstólsins yfir á íslensku. Það er alveg ljóst að slík framkvæmd yrði mjög kostnaðarsöm og það þyrfti mjög stóra stofnun til þess að annast slíkar þýðingar. Það er hins vegar rétt að benda á að Evrópusambandið er fyrst núna að vinna að því að setja dóma Evrópudómstólsins á vef alnetsins.

Ég vænti þess að þessi svör skýri nokkuð stöðu málsins.