Miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 15:01:00 (3983)

1997-02-26 15:01:00# 121. lþ. 78.4 fundur 334. mál: #A miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[15:01]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Ég hlýt að fagna þeim vilja sem mér fannst koma fram hjá hæstv. utanrrh. til þess að koma þessum gerðum á netið. Ég vænti þess að þegar forkönnun lýkur og allir tæknimöguleikar hafa verið skoðaðir verði þær þá birtar þannig að allir sem aðgang hafa geti að kostnaðarlausu skoðað þessar gerðir á netinu.

Ég hlýt að vekja á því athygli hér, þó að ég hyggi að tækifæri gefist til þess síðar í dag að ræða það mál, að svo er nefnilega ekki um íslenska lagasafnið. Almenningur á ekki kost á því að nálgast það á netinu sér að kostnaðarlausu. Ég mun reyna að finna mér tækifæri síðar í dag til að ræða það við hlutaðeigandi aðila.

Um þýðingar á dómunum tel ég að sá uppgjafatónn sem er í ráðherra gagnvart þeim, þó þar sé mikið verkefni á ferðinni, sé óþarfur. Það stendur í lögum frá 1943 að birta skuli lög og dómar Evrópudómstólsins eru þannig lagaðir að þeir hafa ákveðið ígildi íslenskra laga og þess vegna eiga þeir að vera aðgengilegir öllum án tillits til frekari tungumálakunnáttu heldur en að kunna sitt heimamál þó að auðvitað verði að gefa ákveðinn umþóttunartíma í svo viðamiklu verkefni.