Miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 15:05:08 (3985)

1997-02-26 15:05:08# 121. lþ. 78.4 fundur 334. mál: #A miðlun EES-gerða á íslensku um tölvunet# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[15:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það að unnið er að málinu í utanrrn. Ég get tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að að sjálfsögðu er það mjög mikilvægt að þessar gerðir liggi fyrir með aðgengilegum hætti. Í því sambandi fór einn af starfsmönnum utanrrn. til Noregs núna í ársbyrjun til þess að kynna sér það starf sem þar hafði átt sér stað. Þar hafði einkafyrirtæki tekið sér þetta verk á hendur og leyst það sómasamlega eftir því sem ég best veit. Við hyggjumst nýta okkur þá reynslu sem þar hefur fengist í þessu sambandi, en hér þarf að standa vel að verki og auðvitað má kostnaðurinn ekki standa í vegi fyrir því að þetta sé hægt. Við þurfum hins vegar að gera okkur grein fyrir því um hvaða kostnað er að ræða þannig að við getum lagt það fyrir í okkar fjárlagaundirbúningi í sambandi við áframhaldandi meðferð málsins. Þess vegna höfum við lagt á það áherslu að þessu starfi verði sem mest hraðað því að ekkert bendir til annars en hægt sé að vinna þetta að því er tæknina varðar. Hún er því ekki lengur hindrun eftir því sem okkur sýnist best, en þá er að sjá hvort mönnum finnist að kostnaðurinn sé hindrun en ég vænti þess að svo verði ekki.