Samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 17:48:51 (3992)

1997-02-26 17:48:51# 121. lþ. 79.1 fundur 376. mál: #A samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[17:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil segja það fyrir hönd þingflokks jafnaðarmanna að við munum gera það sem við getum til þess að flýta afgreiðslu þessa máls, ekki síst í virðingarskyni við formann landstjórnar Grænlendinga sem kemur í heimsókn í þingið á morgun. Við teljum að það sé nauðsynlegt að gera það sem hægt er til þess að greiða fyrir betri samskiptum við Grænlendinga. Íslendingar hafa alltaf haft tengsl við Grænland. Þau hafa verið missterk en á fyrstu öldum Íslandsbyggðar voru þau e.t.v. enn sterkari en í dag þegar nokkur þúsund Íslendingar tóku sér búfestu og áttu heima á Grænlandi. Þessi samskipti dvínuðu þegar leið gegnum aldirnar. Það má segja að á allra síðustu áratugum og árum hafi samskipti okkar við Grænlendinga ekki verið nægilega góð. Við þurfum að reyna að efla samskipti okkar við þá og ekki síst á sjávarútvegssviðinu. Það erum við að gera með þessum samningi.

Hv. þm. Geir Haarde sagði að líkast til værum við að færa örlitla fórn vegna þess að það væru meiri líkur á því að þeim tækist að nýta sér þessi 8.000 tonn sem grænlensk nótaskip mega veiða hér innan efnahagslögsögunnar, litlar líkur e.t.v. á því að okkur takist í tilraunaskyni að verða okkur úti um sama magn innan efnahagslögsögu þeirra. En staðan er eigi að síður þannig, herra forseti, að á síðasta mánudegi áttu Íslendingar eftir að veiða 470.000 tonn af sínum kvóta þannig að mér er til efs að í þessu sé fólgin mikil fórn af okkar hálfu. Ég held þess vegna að þetta sé auðveldur gerningur.

Við þurfum líka að átta okkur á því, herra forseti, að Íslendingar og Grænlendingar eiga eðlilega miklu meiri samstöðu varðandi loðnuveiðarnar heldur en til að mynda við annars vegar og Norðmenn hins vegar. Við þurfum að gera það sem hægt er til þess að ná góðri samferð með Grænlendingum í þessu máli. Við megum ekki horfa fram hjá því að það eru einungis missiri þangað til þríhliða loðnusamningurinn milli okkar, Grænlands og Norðmanna rennur út, hinn 1. október. Ef þeim samningi verður ekki sagt upp formlega þá framlengist hann. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að segja þeim samningi upp vegna þess að það eflir stöðu okkar gagnvart Norðmönnum.

Við þurfum þá að fá sem mestan styrk frá vinum okkar og frændum á Grænlandi og ég held að með þessum gerningi sé lagt upp í vegferð sem geti ekki annað en orðið okkur til heilla. Ég er þeirrar skoðunar, eins og margir hv. þm. sem hér hafa tekið til máls á undanförnum þingum um samskipti okkar og þeirra, að það sé nauðsynlegt að við leggjum meira af mörkum til þess að ná greiðari samvinnu við þá. Það er sérstaklega með tilliti til þess samnings sem við munum þurfa að fara í og eigum að fara í þegar núverandi þríhliða samningur um loðnuveiðarnar rennur út, sem það er nauðsynlegt að styrkja samskipti okkar við Grænlendinga. Og það er ekki síst út af þessu sem jafnaðarmenn munu gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að greiða fyrir samþykkt þessa samnings í dag.