Samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 17:52:10 (3993)

1997-02-26 17:52:10# 121. lþ. 79.1 fundur 376. mál: #A samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[17:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér til að fagna þessu samkomulagi og lýsa stuðningi við það sem tekist hefur milli Grænlands og Íslands um samstarf á sviði loðnuveiða. Ég vil upplýsa að sjútvn. Alþingis hefur fylgst með þessu máli og reyndar beitt sér í því undanfarin ár. Bæði á þessu kjörtímabili og hinu síðasta hefur sjútvn. tekið jákvætt í erindi frá grænlensku landstjórninni, fyrir hönd grænlenskrar útgerðar, um að fá rýmri möguleika til að nýta þann hlut sem Grænlendingar fá úthlutaðan af loðnustofninum. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta mál nýtur þar af leiðandi stuðnings nefndarinnar sem einróma hefur mælt með því á undanförnum árum að reynt yrði að leita leiða til að koma til móts við óskir Grænlendinga að þessu leyti.

Ég held að það sé rétt að undirstrika að nefndin hefur einnig rætt um nauðsyn þess að bæta samskipti Íslands og Grænlands á sviði sjávarútvegsmála almennt. Af því hafa menn haft nokkrar áhyggjur að undanförnu að þau væru ekki að öllu leyti í sem bestu horfi og löngu kunn er sú staðreynd að enn er ósamið um nokkra sameiginlega fiskstofna milli Íslands og Grænlands og Íslands, Grænlands og Færeyja. Við bindum þar af leiðandi vonir við að jákvæð niðurstaða í þessu máli geti orðið til þess að koma raunverulegum samningaviðræðum um þá hluti á hreyfingu á nýjan leik. Og væri það þá mikils virði og vel til vinnandi að gera þetta samkomulag þó að til sanns vegar megi færa að í því felist nokkur örlætisgerningur af okkar hálfu, því ljóst er að við látum veiðirétt á þeim hluta vertíðarinnar þegar veiðin er öruggust gegn veiðum sem ekki eru eins tryggar eða verðmætar. Ég vil þó alls ekki gera lítið úr því að þessi samningur kunni að leiða til stærri skrefa og aukins samstarfs og samvinnu milli Íslands og Grænlands almennt á þessu sviði. Það er rétt að hafa í huga í þessu máli að sá hluti grænlenska loðnukvótans, þeirra 11% sem til Grænlands hafa farið á undanförnum árum og nýttur er af grænlenskum útgerðum, er nýttur frá Íslandi. Sú útgerð er rekin frá Íslandi og aflanum landað hér, þannig að við eigum í þeim skilningi líka hagsmuna að gæta í að þær veiðar geti gengið vel fyrir sig og Grænlendingar sjálfir aukið sína útgerð þannig að þeir nýti sem stærstan hluta kvótans í stað þess að selja hann öðrum, t.d. Norðmönnum eða Færeyingum, sem hafa gjarnan siglt með aflann í burtu.

Ég vona, herra forseti, að þetta sé upphafið að því að mál þokist nú í rétta átt í samskiptum þessara þjóða og þetta verði einnig innlegg í betri og jákvæðari þríhliða samskipti Íslands, Grænlands og Færeyja sem nauðsynlegt er að vinna að. Það er vel til fundið að hraða afgreiðslu þessa máls og staðfesta það formlega með undirskrift í tengslum við heimsókn formanns landstjórnar Grænlands hingað til Íslands.