Samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 17:55:44 (3994)

1997-02-26 17:55:44# 121. lþ. 79.1 fundur 376. mál: #A samningur um fiskveiðar innan grænlenskrar og íslenskrar lögsögu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur

[17:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. utanrmn. fyrir skjóta afgreiðslu þessa máls. Ég tek undir það með hv. þm. að það er mikilvægt að ljúka því. Þótt það sé ekki endilega nauðsynlegt þá sýnir það mjög góðan vilja Alþingis til þessa máls og til grænlensku þjóðarinnar. Ég tel það vera mjög mikilvægt á þessum tímamótum að svo sé gert.

Íslendingar hafa með margvíslegum hætti undanfarna daga sýnt mjög góðan hug og samstarfsvilja við Grænlendinga. Ég get staðfest það að sl. fimmtudag átti ég viðræður við formann landstjórnarinnar, Lars Emil Johansen, og það er full ástæða til þess að vera bjartsýnn um það að viðræður verði teknar upp á milli þjóðanna um þau ágreiningsmál sem út af standa. Þar á ég einkum við deilu sem er milli þjóðanna um lögsögumörk milli Íslands og Grænlands sem er mjög viðkvæmt mál, ekki síður hér á Íslandi. Einnig um sameiginlegan grálúðustofn og karfastofn sem viðræður hafa legið niðri um á undanförnum árum. En á sama tíma og við höfum verið að draga úr okkar veiðum úr þessum stofnum hafa Grænlendingar verið að auka sína veiði. Það er nauðsynlegt að sjá þessi mál öll í heild. Grænlendingar hafa fyrir sitt leyti lýst yfir vilja sínum til að halda áfram viðræðum um þessi mál og ég veit að það verður staðfest af formanni grænlensku landstjórnarinnar í heimsókn hans hingað. En hún er afar mikilvæg og ég er þess fullviss að heimsókn hans mun verða mjög mikilvæg í þessu sambandi og leiða til bættra samskipta milli þjóðanna sem er ekki aðeins mikilvægt fyrir okkur Íslendinga heldur líka fyrir Grænlendinga og samstarf þjóða hér á Norður-Atlantshafi um mikilvæg fiskveiðihagsmunamál.