Stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 10:39:29 (4020)

1997-02-27 10:39:29# 121. lþ. 81.92 fundur 217#B stækkun járnsblendiverksmiðjunnar á Grundartanga# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[10:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að staðið hafa yfir bráðum í eitt og hálft ár viðræður milli eignaraðila Íslenska járnblendifélagsins, þ.e. Elkem í Noregi, Sumitomo í Japan og íslenska ríkisins um hugsanlega stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Lengst af hafa þessar umræður farið fram innan stjórnar fyrirtækisins. Þær umræður hafa hins vegar ekki skilað árangri og nú í nokkurn tíma eða síðan í október hafa eignaraðilar fyrirtækisins rætt um stækkun á fyrirtækinu.

Málið er þar af leiðandi alls ekki komið á það stig að hægt sé að gera þinginu grein fyrir um hvað er verið að semja þar sem samningar hafa ekki náðst enn þá. Um breyttan eignarhlut í fyrirtækinu verður auðvitað ekki samið nema með samþykki Alþingis vegna þess að lagabreyting þarf að koma til ef breyting á að verða á eignarhluta ríkisins í þessu fyrirtæki.

Afstaða ríkisstjórnarinnar til þessarar stækkunar byggist á því að bæta afkomu Íslenska járnblendifélagsins og tryggja stöðu þess til lengri tíma litið. Í öðru lagi að stækkun með þriðja bræðsluofninum treystir samkeppnisstöðu fyrirtækisins allverulega og tryggir þá um leið atvinnuöryggi þess fólks sem núna vinnur hjá fyrirtækinu. Áætlað er að með stækkun þriðja ofnsins muni framleiðslukostnaður hjá fyrirtækinu í heild sinni lækka úr 3.800 norskar kr. á tonnið niður í 3.200 norskar kr. á tonnið þannig að veruleg hagkvæmni hlýst af þessu.

Fyrirtækið lenti í mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum á síðasta samdráttarskeiði hjá fyrirtækinu árin 1992--1994 og þurfti þá að koma til enn ein aðstoð ríkisins til að fyrirtækið héldi velli í þeirri samkeppni sem þá var. En með því að stækka fyrirtækið og ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri þess eru menn að tryggja að fyrirtækið verði betur í stakk búið til að mæta næstu niðursveiflu sem allir spá að verði um aldamót.