Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 11:18:36 (4025)

1997-02-27 11:18:36# 121. lþ. 81.1 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., Frsm. minni hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[11:18]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Hin svokölluðu vinnumarkaðsfrumvörp, þ.e. frv. um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir, eru nú komin til 3. umr. og því ljóst hver staðan er, hvað búið er að samþykkja, hvaða breytingar er búið að gera á þessum frumvörpum. Það kom greinilega í ljós við atkvæðagreiðsluna í gær að við stjórnarandstæðingar höfum mjög margt við þessi mál að athuga. Ég hygg að það hefði verið skynsamlegra að leggja þau til hliðar bæði tvö vegna þess að það sem eftir stendur, sérstaklega af frv. um atvinnuleysistryggingar, er þess eðlis að sú löggjöf og þær breytingar eru ekki að skila nokkrum sköpuðum hlut.

Eftir 2. umr. blasir við okkur kerfi sem er afskaplega sundurlaust og enginn veit hvert muni þróast. Þetta getur orðið margfalt kerfi þeirra sem eru að fást við atvinnuleysið og löggjöfin um atvinnuleysistryggingar er alveg meingölluð. Og það var ástæðan fyrir því að ekki bara núv. hæstv. félmrh. heldur einnig fyrrv. félmrh. settu nefndir á laggir til þess að fara í gegnum þessi lög. Menn höfðu rekið sig á það, á þessu atvinnuleysistímabili sem nú hefur staðið í ein sex, sjö ár, að ýmsu þurfti að breyta. Staðan núna, eftir að þær breytingar sem nefnd hæstv. félmrh. hafði lagt fram hafa verið dregnar til baka nánast allar, er sú að við stöndum uppi með sama skemmda grautinn. Að mínum dómi hefði verið miklu skynsamlegra að draga málin til baka. Nú er spurningin þessi: Hvað ætlar félmrh. að gera nú? Ætlar hann að sitja uppi með þessa meingölluðu löggjöf eða er meiningin að byrja upp á nýtt? Ef það er meiningin þá held ég að menn verði að vanda sig betur en gert var í þessu tilviki. Ég verð að segja að þau vinnubrögð sem við höfum horft upp á undanfarin ár í málefnum vinnumarkaðarins hafa verið alveg með eindæmum.

Menn leggja fram vægast sagt illa unnin frumvörp, vanhugsuð, jafnvel frumvörp sem brjóta í bága við þá alþjóðlegu sáttmála sem við höfum undirritað þannig að það verður að kollvarpa öllu saman. Og í öðru frv. sem hér eru til umræðu, þ.e. frv. um atvinnuleysistryggingar, gerist það sama að það er allt meira og minna dregið til baka. Þetta segir okkur auðvitað að menn þurfa að vanda sig miklu betur. Það þarf að vanda miklu betur undirbúning frumvarpa af þessu tagi. Og það gengur ekki að bera fram lagafrv. sem eru algjörlega í blóra við vilja þeirra sem málið snertir. Auðvitað er það meiri hlutinn hér á Alþingi sem ræður og auðvitað hafa kjósendur, seinna meir, í því sem nú er farið að kalla hlutalýðræði, part time democracy eins og það er kallað á ensku, fólk hefur ekki tækifæri til þess að kveða upp sinn dóm fyrr en eftir tæplega tvö ár núna í málum eins og þessu og það er algjörlega óviðunandi þegar gengið er fram með þessum hætti. Það er verið að bera fram frv. sem snerta þúsundir manna og réttindi alls launafólks í landinu og þetta er svo hrikalegt að við blasir að málið hefði getað orðið átakspunktur í þeim samningum sem fram undan eru. Og það er auðvitað ástæðan fyrir því að hæstv. félmrh. dró þessar breytingar til baka.

En það er orðið alveg makalaust að horfa upp á þennan hrærigraut. Það var skipuð nefnd 1994. Hún komst að niðurstöðu, lagði fram merka skýrslu sem var miklu jákvæðari en sá andi sem var að finna í frv. hæstv. núv. félmrh. Hann kastar þessu náttúrlega öllu út um gluggann, skipar nýja nefnd og sú nefnd hefur ekki fyrir því að ræða við þá sem fyrst og fremst eru að vinna í þessum málum t.d. Vinnumiðlun Reykjavíkurborgar þar sem sennilega er að finna mesta og besta þekkingu á þessum málum hér. Nei. Það er ekkert verið að ræða við slíka aðila. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist ekki hafa haft nokkurt samráð við sína umbjóðendur og niðurstaðan verður þessi grautur sem gerðar hafa verið miklar athugasemdir við og sveitarfélögin hafa síðan gagnrýnt mjög harðlega vegna þess að það var augljóst að velt yrði yfir á þau miklum kostnaði. Það standa nokkur atriði eftir sem snerta sveitarfélögin varðandi atvinnuleysistryggingarnar, t.d. fimm ára reglan. Það er alveg augljóst að þegar þeir sem eru fórnarlömb langtímaatvinnuleysis missa endanlega sinn rétt þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að leita til sveitarfélagsins. Þetta er fráleit aðferð og ég get ekki hugsað það dæmi til enda þegar þessi regla fer að virka og það fólk, sérstaklega þeir sem eldri eru á vinnumarkaði, fá þann dóm ofan á þá erfiðleika sem þeir hafa lent í við að fá vinnu að vera kastað út úr atvinnuleysistryggingakerfinu. Þeir eru þar með endanlega dæmdir nánast óvinnufærir. Þetta er alveg hörmulegt og ég ítreka það sem ég sagði í seinni ræðu minni við 2. umr. að þessi viðhorf á vinnumarkaðnum og hér með viðhorf atvinnuleysistryggingakerfisins til eldra fólks á vinnumarkaði eru mjög umhugsunarverð og þarna þarf virkilega að grípa á og taka á og reyna að stuðla að viðhorfsbreytingu því að það er augljóst að þarna er oft á ferð mjög öflugur og góður vinnukraftur, sérstaklega konur sem allir vita að eru mjög góður og stöðugur vinnukraftur. Þær eru samviskusamar og vilja vinna sitt verk vel eins og reynslan sýnir.

Ég ætla að nefna þau atriði sem mér finnst upp úr standa eftir 2. umr. Mig langar til að koma aðeins betur inn á þær aðgerðir og umræður sem hafa átt sér stað erlendis um atvinnuleysi. Ég hef verið að lesa mér til um það, hæstv. forseti, að víða um lönd, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, á sér stað mikil umræða um þróun vinnumarkaðarins og hvert stefnir. Það eru líklega orðin ein 20 ár síðan þekktur hagfræðingur, Andre Gotts, skrifaði bók sem hann kallaði Gullöld atvinnuleysisins þar sem hann var að spá því að í framtíðinni yrði miklu minni þörf fyrir vinnuafl, tæknin mundi hafa það í för með sér að að drægi mjög úr þörf fyrir vinnuafli. Hann var m.a. að vekja athygli á hinni breyttu samsetningu vinnumarkaðarins og að sá hópur fólks sem hingað til hefur verið flokkaður sem verkafólk yrði mun fámennari í framtíðinni en hann hefur verið. Það þarf ekki annað en skoða tölur um skiptingu vinnumarkaðarins á Íslandi til að sjá að það hefur orðið alveg gífurleg breyting. Tökum sem dæmi fiskvinnsluna þar sem fólki hefur fækkað alveg gífurlega. Við þekkjum líka dæmin úr landbúnaði.

Það hefur hins vegar ýmislegt komið til móts við þessa fækkun starfa. Það hafa orðið til nýjar greinar, sérstaklega í þjónustu, sem hafa boðið upp á vinnu og kalla fyrst og fremst á menntað vinnuafl. Það segja allir sem skoða framtíð vinnumarkaðarins að það sem þörfin kallar á er fyrst og fremst menntað vinnuafl. Og það vekur miklar áhyggjur hvað við höfum verið sofandi, bæði gagnvart því að endurmennta vinnuaflið, bjóða upp á nýja möguleika og það kemur augljóslega fram í því sem hér er verið að staðfesta að núverandi hæstv. ríkisstjórn lítur á starfsmenntun í atvinnulífinu sem eitthvert atvinnuleysismál. Þetta er ekki spurning um atvinnuleysi. Þetta er spurning um stöðuga endurnýjun og endurmenntun vinnuaflsins. Þetta þarf að skoða algjörlega upp á nýtt og út frá allt öðru sjónarhorni heldur en einhverjum vandamálafræðum eða einhverjum atvinnuleysisvanda. Atvinnuleysi er sérstakt fyrirbæri sem þarf að greina og taka á sérstaklega, en hinn breiði straumur, framtíðin og þörf vinnumarkaðarins er annað mál sem tengist einfaldlega framtíð menntakerfisins.

[11:30]

Ég vil benda mönnum á það að kynna sér þá umræðu sem á sér stað erlendis. Meðal annars hafa Norðurlöndin verið að vinna mjög ötullega að því að þau mál, framtíð vinnumarkaðarins og allt sem snertir vinnumarkaðinn, komi inn í umræður, áætlanir og áform Evrópusambandsins. Þeir hafa tekið þessi mál upp á ríkjaráðstefnunni og vilja fá þau inn í hina fyrstu stoð Evrópusambandsins. Það er hörmulegt að sjá það svo hér, hæstv. forseti, hvað þessi umræða um atvinnuleysið og um vinnumarkaðinn og framtíðina er ótrúlega þröng og gamaldags og mótuð af einhverjum viðhorfum til þeirra sem eru atvinnulausir sem einhvers vandamáls og þetta sé eitthvert letingjamál eða spurning um vinnufælni eða hvað maður vill nú kalla þetta. Þar vil ég vitna í marga þá sem komu á fund félagsmálanefndar, t.d. félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar, Láru Björnsdóttur, sem sagðist einfaldlega vera sjokkeruð yfir þeim anda sem væri að finna í þessum frv. Sjokkeruð. Hún komst þannig að orði.

Ég ætla aðeins að víkja nokkrum orðum að þeirri stöðu sem blasir við okkur í þessum málum, hæstv. forseti. Það ræðst af því að ég fékk í pósti í gær nýja úttekt Þjóðhagsstofnunar á atvinnuástandi í janúar 1997. Það tengist nákvæmlega þessu sem ég var að segja um þróun vinnumarkaðarins. En þessi nýja könnun Þjóðhagsstofnunar sýnir að það virðist vera lítil eftirspurn eftir vinnuafli, þó einna helst í byggingariðnaði, en það segir að atvinnurekendur vilji helst fækka fólki í sjúkrahúsrekstri, fiskiðnaði og verslun og veitingastarfsemi. Þar vilja menn fækka. En það kemur ekki á óvart að það er vaxandi eftirspurn í iðnaði, sérstaklega byggingariðnaði, og það tengist margra ára samdrætti í iðnaðinum. Núna er byggingariðnaðurinn í uppsveiflu og ýmis verkefni honum tengd og það eru þessar miklu framkvæmdir sem eru hafnar í Hvalfirðinum og væntanlega eru fram undan á þeim sama stað, stækkun álversins og fleira sem hefur kallað á aukna eftirspurn. En það sem vekur ekki síst athygli er að á höfuðborgarsvæðinu virðist vera aukin eftirspurn eftir því sem hér er flokkað sem önnur þjónustustarfsemi. Þetta sýnir að það er ekki eftirspurn eftir ófaglærðu verkafólki. Þar er nánast engin eftirspurn, þar er fækkun. Og þetta er sá hópur fólks sem er fjölmennastur í hópi atvinnulausra sem segir okkur að þar þarf að grípa til sérstakra ráðstafana. Þar þarf að skipuleggja menntun og umskólun ófaglærðs fólks. Ég fæ því miður ekki séð, hæstv. forseti, að það sé neitt hér á ferðinni sem sérstaklega beinir sjónum að því. Það er ekkert verið að gera sem beinir sjónum að því að bjóða ófaglærðu fólki, ungu jafnt sem því sem eldra er, upp á raunverulega endurmenntun. Þarna er mál sem þarf að taka verulega á.

Hæstv. forseti. 3. umr. þessa máls er hafin. Það kom fram við atkvæðagreiðslu í gær að það er eitt ákvæði þessa frv. sem er ófrágengið og væri fróðlegt að fá að heyra það frá hæstv. félmrh. hvort niðurstaða er komin í það mál, þ.e. um afturvirknina, hið afturvirka ákvæði sem gerir það að verkum að þeir sem hafa átt við langtímaatvinnuleysi að stríða detta út af bótum. Hafi þeir verið atvinnulausir frá 1. júlí 1994 þá fer reglan að virka á þá 1. júlí 1999. Þetta ákvæði var mjög lítið rætt við 2. umr. en ég vil segja það sem mína skoðun að mér finnst þetta mjög sérstakt í lagasetningu. Ég held það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta tengist ekki broti á stjórnarskrá eða slíku en það er afar óvenjulegt í íslenskri lagasetningu að ákvæði séu afturvirk með þessum hætti. Mér finnst þetta koma við þá sem verst standa og efast um að það ástand eða þau verkfæri verði til staðar að hægt verði að aðstoða þann hóp, sem því miður fer vaxandi samkvæmt tölum frá Reykjavíkurborg, sem hefur átt við langvarandi atvinnuleysi að stríða. Því skora ég á hæstv. félmrh. að breyta þessu. Það er augljóst að þetta hefur ekki áhrif á kostnað eða sparnað á þessu ári. Það gerist ekki fyrr en á eftir 1. júlí 1999 að fólk detti út af bótum. En áður en sá tími rennur upp verður vonandi búið að skipta um ríkisstjórn og vonandi verða önnur sjónarmið komin að í þessum málum og horfi ég nú til formanns Alþfl. sem situr hér í hliðarsal sem ég vona að muni reynast liðsmaður í því að taka á þessum lögum þegar þar að kemur.

Herra forseti. Ég vil aðeins nefna starfsmenntun í atvinnulífinu og styrki til atvinnusköpunar kvenna sem verður hluti af þessum lögum þegar þau verða endanlega afgreidd og vil ítreka þá skoðun mína að þessir þættir eigi ekki heima í Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta eru mjög sérkennilegar ráðstafanir. Það eru tvö verkefni flutt inn í Atvinnuleysistryggingasjóð, þ.e. starfsmenntun í atvinnulífinu og styrkir til atvinnusköpunar kvenna sem eru auðvitað allt annað mál og tengist almennt nýsköpun í atvinnulífinu en á ekki að vera að tengja við atvinnuleysi. Ég veit ekki betur en von sé á frv. frá hæstv. viðskrh. um nýsköpunarsjóð. Auðvitað hefði þetta mál átt miklu frekar heima þar, í nýsköpunarsjóði, heldur en í Atvinnuleysistryggingasjóði. Jafnframt var meiningin samkvæmt því sem fram kom við fjárlagagerðina fyrir jól að taka kjararannsóknarnefnd út úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það væri gott að fá það upplýst hjá hæstv. félmrh. hvar það mál stendur. Ég skil þetta eiginlega svo að kjararannsóknarnefnd hafi eiginlega verið hálfmunaðarlaus og hafi gleymst á fjárlögum og ekki verið ljóst eiginlega hver átti að borga fyrir hana. En ég er í sjálfu sér sammála því að taka hana út úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hún ætti að heyra undir vinnumálin og reyndar tel ég að það þurfi að stórefla kjara- og vinnumarkaðsrannsóknir hér á landi sem eru afskaplega takmarkaðar. Þær eru mjög takmarkaðar og þyrfti að skipuleggja miklu betur. Vil ég þar t.d. vísa til Svíþjóðar þar sem verið hafa mjög öflugar vinnumarkaðsrannsóknir.

Hæstv. forseti. Aðeins meira um atvinnuleysið og afleiðingar þess. Við erum hér að fjalla um lög um Atvinnuleysistryggingasjóð og ef ég reyni að draga saman það sem blasir við mér þá sýnist mér að því miður munum við búa við nokkurt atvinnuleysi hér. Eins og ég rakti við 2. umr. bendir allt til þess að það muni ekki fara niður fyrir 3--4%, þessi staða sé einfaldlega komin upp hér eins og í flestum vestrænum samfélögum. Það þýðir að hér er bæði orðinn til hópur ungs fólks sem kemur út á vinnumarkaðinn og er einmitt mjög athyglisvert og hefur vakið óhug okkar í félmn. að sjá þennan stóra hóp af ungu fólki sem er réttindalaus og bótalaus. Svo ég vitni í það sem fram kom hjá Loga Sigurfinnssyni, sem annast atvinnuleysismál hjá Hinu húsinu hér í Reykjavík, þá kom það fram hjá honum að á síðasta ári fengu 373 einstaklingar framfærslubætur á aldrinum 17--19 ára í Reykjavík. Langflestir í þessum hópi eru réttindalausir. Fólk hefur fengið tímabundnar bætur. Það kom fram hjá Láru Björnsdóttur, félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar, að langflestir þeirra sem fá bætur hjá borginni eru innan við fjóra mánuði á bótum. Þeir fá aðstoð í innan við fjóra mánuði. En þetta segir okkur að það eru hundruð ungmenna, karlar og konur, og ungar mæður eru m.a. allnokkrar í þessum hópi, það er vaxandi hópur ungs fólks sem er réttindalaus og bótalaus. Þetta er alveg sérstakt áhyggjuefni sem þarf að taka á af krafti og þarf samræmdar aðgerðir og markmið. Eins og fram hefur komið í okkar gögnum setti ríkisstjórn Noregs sér það markmið og kvað á um það í lögum að atvinnuleysi ungs fólks skyldi útrýmt. Það er einmitt eitthvað slíkt sem við hefðum viljað sjá hér, ákveðnar aðgerðir sem beinast að ákveðnum hópum.

Það er líka orðinn til, hæstv. forseti, hópur fólks sem á við langtímaatvinnueysi að stríða og virðist fara fjölgandi í þeim hópi.

Enn ein afleiðing atvinnuleysisins er stóraukið álag á félagsmálastofnanir sveitarfélaganna. Það er mjög athyglisvert að skoða tölur t.d. úr Reykjavík á síðasta kjörtímabili. Þegar við vorum samherjar, hæstv. félmrh. og sú sem hér stendur, þá vitnuðum við oft til þess að á örskömmum tíma tvöfaldaðist fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar til þurfandi, en það kom fram hjá félagsmálastjóra Reykjavíkurborgar að á árinu 1996 fóru 733 millj. kr. til fjárhagsaðstoðar. Þar af fóru 75% til atvinnulausra. Af þessum hópi atvinnulausra, og nú kem ég aftur að því, var helmingur bótalaus. Því vil ég segja enn og aftur, hæstv. forseti, að þennan hóp sem er réttindalaus og bótalaus þarf að skoða alveg sérstaklega. En hér er fyrst og fremst verið að skilgreina hverjir fái bætur og hvernig sé hægt að henda fólki út úr bótakerfinu. En hvað svo? Það hefði verið stórmannlegra að sjá einhver markmið þess efnis að taka á þessum vaxandi vanda.

[11:45]

Enn eitt atriði, hæstv. forseti, og svo fer ég alveg að ljúka máli mínu, og það er sú hugmynd í frv. um vinnumarkaðsaðgerðir sem mér finnst afar sérkennileg sem er þetta svæðafyrirkomulag, að koma upp svæðisvinnumiðlunum. Í því ráðuneyti sem hæstv. félmrh. stýrir er einnig fjallað um málefni fatlaðra. Þar hefur um margra ára skeið verið til staðar svæðafyrirkomulag, landinu hefur verið skipt upp í ákveðin svæði. Það voru settar upp skrifstofur í öllum landshlutum sem önnuðust málefni fatlaðra. Núna er verið að hverfa frá þessu skipulagi af því að það þótti ekki gefast nógu vel. Það þótti betra að taka öðruvísi á þessum málum og fyrst og fremst er verið að vinna að því núna að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. En í þessum málum á að taka upp svæðafyrirkomulag. Og hver eru rökin? Hvað er það sem bendir til þess að það fyrirkomulag muni reynast eitthvað betur en að málin séu hjá sveitarfélögunum? Hefði ekki verið nær að skoða reynsluna af þessu svæðafyrirkomulagi, skoða kostina og þó kannski einkum gallana, fyrst menn eru greinilega að hverfa frá þessu, og hugsa sinn gang áður en taka á upp nýtt skipulag með forstöðumönnum, ráðum, undirráðum og öllu þessu gríðarlega battaríi sem á að koma upp.

Hæstv. forseti. Ég hef nú nefnt þau atriði sem ég vildi víkja að við 3. umr. Ég vil nefna það sérstaklega að það er mjög athyglisvert að skoða hvert atvinnuástandið er í dag, hvar eftirspurnin er eftir vinnu og hvaða aðgerðir það eru sem ríkisstjórnin er að grípa til, bera þetta tvennt saman og spyrja sig: Er von nokkurra úrbóta? Því miður, hæstv. forseti, fæ ég ekki séð að svo sé. Það eru ýmis góð áform og góðar hugmyndir í frv. um vinnumarkaðsaðgerðir en vandséð að þeim verði komið í framkvæmd, m.a. vegna þess að það fólk sem á að sinna þessum úrbótum er ekki til. Það þarf að byrja á því að mennta ráðgjafa og sjá til þess að hægt sé að veita þá þjónustu sem lögin kveða á um.

Það er í það minnsta eitt atriði í frv. sem enn er óleyst og fróðlegt væri að fá upplýst hvar stendur og það sem er allra síðast, hæstv. forseti, er það að frv. um atvinnuleysistryggingar er orðinn algjör bastarður eins og hér kom fram í gær. Lögin standa næstum því söm og jöfn og þau voru áður nema hvað búið er að kasta út fulltrúum Alþingis og gera breytingar hér og þar. Ég mun kjósa að sitja hjá við endanlega afgreiðslu þess frv. og mér er alveg hjartanlega sama um það hverjir sömdu um hvað og hvenær og með hvaða samráði. Okkar hlutverk hér er að taka málefnalega afstöðu til þessara laga og spyrja okkur þeirrar spurningar hvort þau komi þeim að gagni sem þau eiga að nýtast. Og þó að ég segi þetta um samráð, þá vil ég ítreka að ég tel að það eigi og þurfi að ríkja samstaða í þjóðfélaginu um stóra málaflokka eins og skólamál, heilbrigðismál og leikreglur vinnumarkaðarins en þar hafa aðferðir ríkisstjórnarinnar verið vægast sagt hörmulegar.

Hvað varðar hið ömurlega frv. um vinnumarkaðsaðgerðir, sem að mínum dómi er ein hringavitleysa, þá mun ég greiða atkvæði gegn því frv., hæstv. forseti.