Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 12:04:28 (4027)

1997-02-27 12:04:28# 121. lþ. 81.1 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[12:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Út af spurningu hv. þm. varðandi Tryggingasjóð einyrkja, þá hefur komið í ljós að það eru einhverjar aðrar stéttir sem hafa áhuga á því að gerast aðilar að sjóðnum og ég mun leggja til að frv. um einyrkjana verði breytt þannig að opnað verði fyrir öðrum hópum eða stéttum einyrkja sem kynnu að æskja aðildar að sjóðnum. Ég tel að það sé einboðið að gera það. Ég tel líka að það sé eðlilegt að það sé a.m.k. heimild til þess að deildaskipta sjóðnum.

Sjónvarpsþýðendur hafa komið á minn fund t.d. og kvartað yfir réttleysi sínu. Þegar ég fór að athuga það sýndist mér að þeirra mál væru í hinum mesta ólestri, þ.e. félagsleg mál, og ég ætla að setja nefnd með aðild þeirra og menntmrn. og fjmrn., hvort ekki væri mögulegt að koma betra skipulagi á þeirra félagsskap og þá gæti í framhaldinu hugsanlega orðið vilji þeirra að gerast aðilar að sjóðnum og ég hef ekkert á móti því.