Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:32:24 (4033)

1997-02-27 13:32:24# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:32]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er brýn ástæða fyrir því að málefni aldraðra séu tekin til umræðu á hinu háa Alþingi. Þrengt er að hag þeirra og óöryggi skapað. Það eru um 65 þúsund manns yfir 50 ára hérlendis og 27 þúsund yfir 67 ára aldri. Þetta fólk á sammerkt að hafa lifað tímana tvenna og byggt upp þau lífskjör sem við búum nú við.

Það er samfélagsleg skylda stjórnmálamanna, einkum jafnaðarmanna, að veita öldruðum öryggi og gott viðurværi í ellinni. Skammarlegt er að það skuli vera ástæða fyrir aldraða að fyllast réttmætri gremju gagnvart stjórnvöldum. Þessi hópur á ekki margra kosta völ til að þrýsta á stjórnvöld til að leiðrétta kjör sín. Það er ekki rætt við þennan hóp í karphúsi og ekki fara aldraðir í verkfall ef þeim þykir á sig hallað. Þessi hópur hefur skilað því margföldu til þjóðfélagsins sem rennur til hans á síðari hluta ævi þeirra.

Ríkisstjórnin afnam tengingu greiðslna úr almannatryggingakerfinu við launabreytingar og skerti hlut aldraðra nú í haust. Þetta er ríkisstjórnarstefna. Þeir hlífa ekki þessum hóp. Lífeyrisgreiðslur eiga að hækka um 2% á þessu ári án tillits til væntanlegra kjarasamninga. Persónuafsláttur og vaxtabætur eru óbreyttar þrátt fyrir verðbólgu af því að ríkisstjórnin er að aura upp í kjarasamninga.

Ríkisvaldið ætlar nú eina ferðina enn að greiða launahækkun fyrir VSÍ með skattalækkunum, þ.e. á kostnað almennings, en ekkert tillit er tekið til hagsmuna aldraðra. Heilbrrh. lýsti á fundi með eldri borgurum 21. febrúar á Hótel Borg, samkvæmt Morgunblaðinu, að hún væri hlynnt því að ellilífeyrir væri aftur tengdur almennum launakjörum. Ráðherrann stóð hins vegar að því í desember 1996 ásamt stjórnarliðinu að fella tillögu stjórnarandstöðunnar að þetta samband yrði tekið aftur upp. Formaður jaðarskattanefndar vill samkvæmt blaðaummælum sem minnst vita af hagsmunamálum aldraðra í vinnu nefndarinnar.

Ellilífeyrir er hér 2,3% af landsframleiðslu, en í Svíþjóð er þetta hlutfall um 10%. Við í þingflokki jafnaðarmanna munum óska eftir samanburði á kjörum eldri borgara hérlendis og í nágrannalöndunum. Samkvæmt dæmi Félags eldri borgara og aðgerðahóps aldraðra tapar sá aðili sem fær 10 þús. kr. hækkun lífeyrisgreiðslna. Tekjutrygging, heimilisuppbót og lyfjauppbót lækka, svo og fríðindi vegna ljós- og hljóðvakamiðla. Þetta eru jaðaráhrif kerfisins.

Auðvitað er þetta jafnforkastanlegt og það er gagnvart millitekjufólki vinnumarkaðarins. Munurinn er sá að þar er verið að leggja til lausnir en gagnvart eldri borgurum er ekkert gert. Grunnlífeyrir er nú 13 þús. kr., tekjutrygging 25 þús. sem skerðist við 18 þús. kr. tekjur. Greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða tekjutryggingu og það er harðlega gagnrýnt af eldri borgurum. Eldra fólk ber oft mikinn kostnað, t.d. við kaup og rekstur þjónustuíbúða. Það er aukin harka í viðbrögðum eldra fólks vegna þess að því er misboðið með framgöngu ríkisstjórnarflokkanna. Þó eru þar í forustu ýmsir sem hafa verið nokkuð ráðandi innan stjórnarflokkanna, en það kemur fyrir ekki. Þeir tala fyrir daufum eyrum og það er skammarlegt, herra forseti.

Niðurstaða jaðarskattanefndar getur orðið lykilatriði við gerð kjarasamninga varðandi jaðarskatta og jaðaráhrif í skatta- og almannatryggingakerfinu og slíkt hefur mikil áhrif á fjárlög. Ég spyr því hæstv. fjmrh. eftirfarandi spurninga:

Mun fjmrh. beita sér fyrir því að ellilífeyrir, tekjutrygging og tengdar bætur fyrir árið 1997 hækki a.m.k. til samræmis við launabreytingar 1997 og þá meira en um þau 2% sem kveðið er á í fjárlögum fyrir árið í ár?

Mun fjmrh. beita sér fyrir því í ríkisstjórn að hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra sé tengd almennum launabreytingum eins og var áður, samanber kröfu Félags eldri borgara og nýlegar yfirlýsingar heilbrrh. um stuðning við að slíkt samband sé tekið upp aftur?

Hyggst fjmrh. beita sér fyrir afnámi eða minnkun tekjutengingar ellilífeyris, tekjutrygginga og tengdra bóta?

Hyggst fjmrh. beita sér fyrir því að fulltrúar aldraðra fái að taka þátt í tillögugerð um endurbætur á skattkerfinu eins og gildir mjög oft um aðila vinnumarkaðarins?