Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:43:13 (4035)

1997-02-27 13:43:13# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:43]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það var satt að segja heldur kaldranalegur boðskapur til aldraðra og öryrkja í landinu sem kom frá hæstv. fjmrh. Það var tvennt sem hæstv. fjmrh. hafði að segja við aldraða og öryrkja á Íslandi í þessari ræðu. Það var í fyrsta lagi að það þyrftu að fara fram viðamiklir útreikningar á kjörum þessa fólks. Það vita allir hvað þýðir. Það þýðir að það á að drepa málinu á dreif.

Í öðru lagi sagði hann að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri nauðsynlegt að --- gera hvað? Að samræma skerðingarnar. Þetta eru brýnustu verkefnin að mati hæstv. fjmrh. þegar það blasir við að kjör aldraðra og öryrkja eru að versna dag frá degi fyrst og fremst vegna ákvarðana sem eru teknar hér í þessum sal, pólitískra ákvarðana um skerðingu á svo að segja öllum þáttum almannatrygginga og stöðugt brattari tekjutengingum. Ég nefni í því sambandi t.d. lyfjauppbót, sem í sumum tilvikum er verið að strika út. Ég nefni í því sambandi sérstaka heimilisuppbót sem er verið að strika út. Ég nefni í því sambandi hina almennu heimilisuppbót, sem er jafnvel strikuð út, og ég nefni í því sambandi fréttirnar núna sem hafa borist öldruðum hundruðum saman síðustu daga frá Tryggingastofnun ríkisins og Ríkisútvarpinu um að fella niður þá heimild sem hefur verið hjá öldruðum og öryrkjum að þeir þyrftu ekki að borga afnotagjöld útvarps og sjónvarps. Þetta blasir núna við í stórum stíl og þýðir að í mörgum tilvikum er fólk er að borga langt yfir 100% í jaðarskatt af tekjum umfram t.d. 75 þús. kr. á mánuði. Það er því alveg ljóst, herra forseti, að á þessu máli verður að taka núna í tengslum við samningana. Það þarf enga viðamikla útreikninga á kjörum aldraðra og öryrkja í þessum efnum, hæstv. fjmrh. Það þarf að fara í málið. Vandinn hefur verið sá núna undanfarin ár, allt frá 1991, að svo að segja á þriggja mánaða fresti hafa borist tilkynningar til þessa fólks um að það ætti að skerða kjör þess með einum eða öðrum hætti. Þetta fólk býr við stöðuga óvissu í kjörum sínum. Kjör þess eru flókin og það er alvarlegur hlutur að standa þannig að málum. Þess vegna er brýnt að taka málið fyrir og það má ekki standa upp frá þeim kjarasamningum sem nú eru fram undan öðruvísi en að ríkisstjórnin verði knúin til undanhalds í þessum efnum.