Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:45:50 (4036)

1997-02-27 13:45:50# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:45]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram, eru aldraðir í landinu, þeir sem eru 67 ára og eldri, um 27 þúsund manns eða 9,9% af íbúafjölda. Það er nokkuð ljóst að þeim mun fjölga og er álitið að um 2030 verði þessi aldurshópur 16--17% af þjóðinni. Meðal annars vegna þessa er ljóst að við stöndum frammi fyrir viðfangsefni sem verður að taka á og verður að leysa. Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er ákvæði þess efnis að sett verði ný lög um almannatryggingar þar sem réttur þeirra sem raunverulega þurfa á bótum að halda verði betur tryggður en nú er.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að þegar tekjutryggingunni var komið á árið 1971 voru rökin sem stóðu að baki því þau að hún skyldi tryggja framfærslu lífeyrisþega í samræmi við lægstu laun þangað til lífeyrissjóðirnir hefðu bolmagn til að taka við. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði og sú hugsun sem ég vil halda á lofti í þessu sambandi.

Það er hins vegar langt í það að lífeyrissjóðirnir geti leyst þetta verk af hendi. Bætur almannatrygginga, svo að ég komi aðeins inn á þær, hafa hækkað verulega í tíð núv. ríkisstjórnar, núv. hæstv. heilbrrh. Sem dæmi: Þeir sem búa einir og hafa ekki aðrar tekjur hafa hækkað úr 47.031 kr. í 53.137, eða um tæplega 13%. Á sama tíma hafa heildarútgjöld hækkað úr 15 milljörðum 830 millj. í 18 milljarða 81 millj., eða um 14,22%.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið en ég vil bara að síðustu segja að bótagreiðslur almannatrygginga hljóta fyrst og fremst að eiga að þjóna þeim sem ekki hafa úr öðru að spila. Það er hins vegar sú stóra spurning sem við stöndum frammi fyrir: Hvar eiga mörkin að liggja? Hvenær eiga þessi skerðingarákvæði að koma inn og taka gildi? Það er viðfangsefni sem núv. hæstv. ríkisstjórn mun taka á.