Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:48:28 (4037)

1997-02-27 13:48:28# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:48]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál til umræðu á Alþingi. Ég vil biðja aldraða afsökunar á því að ekki skuli vera fleiri þingmenn í salnum en raun ber vitni en þar kemur margt til og m.a. miklar annir.

Ég verð að segja að ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að nokkru leyti hvað varðar þá ádeilu sem hefur komið upp varðandi stöðu aldraðra hér á landi. Mikinn hluta starfsævi sinnar eru einstaklingar að búa sig undir áhyggjulaust ævikvöld og taka þá mið af gildandi lögum og reglum um aldraða þegar lagt er í sameiginlega sjóði almannatrygginga og séreignarsjóði lífeyrissjóðanna. Það er því nauðsynlegt að stöðugleika sé gætt í hvívetna hvað varðar fjárhagslega afkomu aldraðra.

Hér hefur verið rætt nokkuð um lífeyrissjóðina og það er vissulega vandamál út af fyrir sig. Ég held að þegar lagt var upp með lífeyrissjóðinn hafi mönnum ekki órað fyrir því að jafnhrikalegar örorkugreiðslur yrðu úr sjóðnum og raun ber vitni. Væri hægt hins vegar að koma því við að örorkubætur yrðu greiddar úr Tryggingastofnun ríkisins gætu lífeyrissjóðirnir staðið mikið betur að vígi gagnvart greiðslum til aldraðra heldur en raun ber vitni í dag. Hér hefur komið fram að 27 þús. aðilar eru 67 ára og eldri. Þeirra gremja er réttlát að mörgu leyti vegna þess að aldraðir eiga vissulega að fá að koma miklu meira að stjórnsýslunni heldur en gerst hefur fram að þessu. Mér heyrðist það á fjmrh. að þess muni ekki langt að bíða og ég fagna því.

Ísland er í dag gott og gjöfult land og ég þakka þeim og við hinir yngri hljótum að þakka þeim öldruðu sem landið byggðu. Við hinir sem erfum eigum gott eitt að láta af okkur leiða í umhyggju gagnvart öldruðum.