Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:00:06 (4042)

1997-02-27 14:00:06# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:00]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágúst Einarssyni fyrir þessa umræðu og tek heils hugar undir þau sjónarmið sem fram komu í ræðu hans. Það er til háborinnar skammar að mínu mati hvernig búið er að eldri borgurum þessa lands og öðru láglaunafólki eftir að sú launastefna hefur verið ríkjandi að halda lægstu töxtum niðri og miða bætur við þá. Hér eru einkum til umræðu kjara- og skattamál aldraðra sem eru auðvitað brýnust núna en vissulega er margt fleira við þeirra kjör og aðbúnað sem væri ástæða til þess að ræða við annað tækifæri heldur en núna þegar við höfum tvær mínútur til umræðu.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að við sjáum fram á mjög miklar breytingar á aldursskiptingu þjóðarinnar og þeim mun mikilvægara er að koma lífeyrismálunum í sæmilegt horf en því miður er ekki margt sem bendir til þess, t.d. varðandi þá hópa sem ekki njóta neinna lífeyrisréttinda núna eins og t.d. húsmæður eða þeir fjölmörgu og sífellt fleiri launþegar sem eru settir undir svokallaða gerviverktöku, ekki síst hjá ríkinu sjálfu. Þetta er til háborinnar skammar og verður að breyta og núna er lag að mínu mati, þegar efnahagsbatinn er, að hækka lægstu laun og tengja laun aldraðra aftur við þau laun. Einnig er mjög mikilvægt að eldri borgarar fái aðgang að jaðarskattanefnd eða alla vega að tekið verði mið af sjónarmiðum þeirra í vinnu nefndarinnar.