Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:03:58 (4044)

1997-02-27 14:03:58# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:03]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka fjmrh. svör hans. Þau voru lítil en þau sögðu okkur samt eitt: Það á ekkert að gera gagnvart öldruðum við þessa samningsgerð núna. Það á ekki að hleypa neins staðar að sjónarmiðum aldraðra í þá vinnu sem núna er í gangi. Það kom út úr þessari umræðu. Þeir eiga ekki að fá að koma að endurskoðun á skattalöggjöf. Það á ekki að taka tillit til jaðartenginga nema að vísa því í nefndarstarf sem er langt fram undan. Það á ekki að bæta hag þeirra hvað varðar lífeyrisgreiðslur með tengingu við launaþróun.

Það kom einnig fram hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að allt væri raunverulega í góðu lagi. Þá spyr ég: Af hverju eru aldraðir að láta svona? Af hverju eru aldraðir að mótmæla eins og aldrei fyrr? Það er vegna þess að gengið er á kjör þeirra og hlutirnir eru ekki í lagi. Það dugir ekki að koma hér upp eins og hv. þm. Guðni Ágústsson og spjalla um daginn og veginn þegar horft er til þess að það eru ekki fögur orð sem skipta máli í þessum ræðusal, heldur er það stefnan, breytingarnar sem eru fyrirhugaðar. Og þær eru engar. Þetta á að vera algjörlega óbreytt gagnvart öldruðum í landinu.

Herra forseti. Það er oft sagt, að virði þjóðfélags sé kannski best metið eftir þeirri umhyggju sem það sýnir öldruðum. Ég er ansi hræddur um að þjóðfélag okkar, herra forseti, sé ekki mikils virði mælt á þennan mælikvarða.