Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 15:02:03 (4063)

1997-02-27 15:02:03# 121. lþ. 81.4 fundur 268. mál: #A stjórnarskipunarlög# (nytjastofnar í hafi) frv., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[15:02]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um frv. mitt sem hér er til umræðu. Ég get í sjálfu sér tekið undir hvert orð sem hún sagði. Að auki vil ég aðeins bæta við nokkrum orðum vegna skrifa prófessors Sigurðar Líndals sem ég talaði um í morgun. Mér finnst mjög athyglisvert hvernig hann reynir að rökstyðja það að með því að taka upp kvótakerfið árið 1983 þá hafi atvinnuréttindi til fiskveiða verið viðurkennd sem eignarréttindi eins og stjórnarskráin skilgreinir þau. Þetta finnst mér mjög sérstakt. Þetta er ekki rökstutt öðruvísi en svo að það þurfti þriggja ára veiðireynslu til að fá þessi réttindi. En áður, eins og hann segir, alveg frá Grágásartímum, höfðu fiskveiðar verið hér frjálsar nema hvað þær voru leyfisbundnar frá árinu 1976. Má þá ekki alveg eins spyrja: Hvað með alla hina sem kannski voru með leyfisbundnar veiðar frá 1976--1983 en voru ekki með þessa þriggja ára veiðireynslu? Þeir fengu ekki neitt en hinir fengu allt saman. Eða þá ef við lítum á sameignarákvæðið: Hvað með alla hina sem ekki fengu, miðað við þessa viðmiðun, þriggja ára veiðireynslu? Ég er sem sagt mjög ósátt við þessa túlkun prófessorsins og einnig þá niðurstöðu hans að það sé ljóst mál að ríkið verði ekki bótaskylt ef kerfið verði aflagt og teknar upp frjálsar fiskveiðar. En hann segir ekki hvað muni gerast ef tekin yrði upp annars konar úthlutun á kvóta eða einhvern veginn skert sóknarkerfi. Ég get því ekki túlkað grein hans öðruvísi en svo að hann sé að segja að þá verði ríkið bótaskylt. Þetta er mjög alvarlegt mál og alvarlegt að svona túlkanir komi fram í blöðum. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessi umræða haldi áfam hér á Alþingi og að sameignarákvæðið verði fest í stjórnarskrá eins og hér er lagt til.