Kaup skólabáts

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 16:14:15 (4074)

1997-02-27 16:14:15# 121. lþ. 81.8 fundur 310. mál: #A kaup skólabáts# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[16:14]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þeir sem hafa stundað sjó hafa oft haft á því orð að það sé að verða alvarlegt ástand með æskuna hér á landi, hún megi ekki dýfa hendi í kalt vatn fyrr en hún hefur lokið löngu námi. Hér þarf auðvitað að verða nokkur breyting á og ég tel að þessi þáltill. sé í nokkra átt til þess að mæta kröfum tímans en ungt fólk þarf auðvitað nauðsynlega á að halda að komast í snertingu við atvinnulífið með einum eða öðrum hætti.

Landhelgisgæslan hefur nú um nokkurn tíma sinnt þessu hvar ungu fólki hefur verið gefinn kostur á að fara í hálfsmánaðar- til mánaðarferð með varðskipunum. Þar hafa þessu unga fólki verið kennd undirstöðuatriði sjómennskunnar þótt vissulega hafi kannski ekki verið farið eins langt og hér er lagt til.

Öllum ber saman um það sem að þessum málum koma hjá Landhelgisgæslunni að greinilega megi sjá og finna mun á ungu fólki eftir að það hefur verið um borð í varðskipunum, lært þar ýmsa sjóvinnu en nokkuð meira þurfi vissulega til ef menn eru að hugsa um að þjálfa ungt fólk til starfa hvað áhrærir fiskimennskuna.

Flm. kom inn á að það hefði þekkst hér á árum áður að ungu fólki var gefinn kostur á að vera um borð í fiskiskipunum. Ég man þá tíð að ég fékk ungur maður að fara um borð í einn síðutogarann og þá vorum við ungu mennirnir nefndir hálfdrættingar af því að við vorum upp á hálfan hlut. Það var auðvitað kappsmál allra ungra manna að vera ekki lengi á hálfum hlut heldur að reyna að vinna sig upp og lögðu menn margt þar af mörkum til þess að stytta sér leiðina upp í þá hefð að vera ekki lengur hálfdrættingur heldur háseti með respekt.

Það var svo líka til á kaupskipunum nokkuð sem hét viðvaningar. En þannig þróuðust nú mál þar að bæði vegna fækkunar í áhöfn, meiri hraða og aukinna krafna til vinnunnar, voru oftar en ekki gerðar slíkar kröfur til þessara viðvaninga, sem voru komnir um borð til að læra sjómennskuna, undirstöðuatriðin og gera sig hæfari þá fram liðu stundir, að þær voru engu minni heldur en gerðar voru til þeirra háseta sem höfðu verið til sjós um nokkuð langan tíma.

Það er vissulega athygli vert þegar litið er til nágrannalandanna hvað þau lönd, sem þó eiga ekki jafnmikið undir eins og við Íslendingar hvað fiskveiðar áhrærir, leggja mjög af mörkum til þess að stuðla að því að ungt fólk eigi möguleika á að komast til sjós.

Mér er það minnisstætt að á sl. sumri var ég á sólarströnd Spánar hvar mikil og ágæt hollensk skúta kom að bryggju. Þegar ég gekk eftir því við skipstjórann hvað kæmi til, vegna þess að ég tók eftir því að um borð í skútunni var eingöngu ungt fólk, þá tjáði hann mér að þessi skúta væri gerð út af hollenska ríkinu og þarna væri verið að styðja unglinga sem höfðu lent á refilstigum eða misstigið sig í lífinu. Það væri verið að gefa þeim kost og möguleika á að endurskoða sjálfa sig og komast aftur til manns og þarna voru jafnt stúlkur sem drengir. Hollenska ríkið lagði sem sagt í þann kostnað að reka skútu við Spánarstrendur og senda ungt fólk þangað niður eftir til þess að læra að lifa lífinu. Þetta er athugunarvert og ég held sannarlega að við Íslendingar eigum alvarlega að hugleiða hvernig við ætlum að halda á okkar málum.

Sem formaður Sjómannasamtakanna hef ég oftar en ekki leitað til erlendra aðila á merkum tímamótum í sögu sjómannadagsins og reynt að fá erlenda skútu til þess að koma hér við. Alltaf vekur það jafnmikla athygli Íslendinga þegar glæsileg seglskip koma brunandi inn Faxaflóann og leggjast að bryggju, alltaf er sama fólksstreymið til þess að skoða þessi skip.

Hér er það ekki stórt skrefið sem stigið er til þess að gefa sem flestum ungmennum kost á að koma til sjós. En ég held samt sem áður að þetta sé skref í rétta átt, enda er ég meðflm. að þessari þáltill. og tel hana af hinu góða. Eins og frsm. kom hér inn á, ber alls staðar að sama brunni hvar spurt er. Þeir sem þjónustunnar hafa notið bera allir lof á og telja að þetta sé af hinu góða og vissulega er það það sem við mátti búast og menn vissu. Það er ákveðið vandamál, herra forseti, fyrir ungt fólk sem þarf að komast í störf og vill fara til sjós, það er ákveðinn vandi að senda ungt fólk beint um borð í togara án þess að það hafi nokkuð lært undirstöðuatriðin. Það er erfitt fyrir það að fá pláss og það kemur náttúrlega einhvern tíma að því að endurnýjunar er þörf í áhöfn þessara togara, þá þarf auðvitað að leita að nýju fólki og ekki væri það nú verra ef fólk hefði fengið einhverja tilsögn, hefði einhverja reynslu og þekkingu, það mundi örugglega stuðla að því að slysatíðni mundi m.a. minnka á þessum togurum. Mér er það minnisstætt þegar skuttogaraaldan gekk hér yfir. Þá var það því sem næst þannig að í höfninni lá nýr skuttogari, síðutogari kom brunandi að bryggju og lagðist nánast við hliðina á skuttogaranum, áhöfnin gekk yfir og síðan var haldið til hafs til veiða á ný án þess að nokkur þekking eða reynsla væri þar við lýði. Enda sagði líka slysatíðni sjómanna okkur allt um það hvað þarna væri að gerast.

Enn er það svo að slysatíðni meðal íslenskra sjómanna er mjög há og er óeðlilega há miðað við t.d. slysatíðni hjá Norðmönnum sem gera út mjög svipuð skip og Íslendingar og oft á hafsvæðum þar sem veður eru válynd eins og hér. Þess vegna tel ég, herra forseti, að þessi þáltill. sé rétt í tíma sett og heiti á alþingismenn að veita þessu máli brautargengi svo þarft sem það er. En það vill nú oft verða svo, og var hér í umræðunni í gær um Sjómannaskólann, að þegar kemur að þessari stétt manna þá er eins og það sé mjög erfitt að fá fjármagn til þess að kenna þeim, eins og t.d. að reka hér skólabát, það er eins og þar séu allir sjóðir lokaðir.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu, en lýsi eindregnum stuðningi mínum við þetta mál og vænti þess að það fái góðar lyktir á hinu háa Alþingi.