Landsbókasafn -- Háskólabókasafn

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 16:22:29 (4075)

1997-02-27 16:22:29# 121. lþ. 81.10 fundur 342. mál: #A Landsbókasafn - Háskólabókasafn# þál., Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[16:22]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það mál sem ég mæli hér fyrir lýtur að því að Alþingi feli menntmrh. að efla þjónustu Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns, m.a. með því að rýmka afgreiðslutíma safnsins og auka þannig möguleika þeirra sem nýta það, háskólastúdenta, fræðimanna og annarra notenda, á að hagnýta sér þau einstæðu gögn sem er að finna innan stofnunarinnar. Með mér flytja þetta mál hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

Herra forseti. Þegar Þjóðarbókhlaðan var opnuð fyrir örfáum árum voru það mikil gleðitíðindi fyrir þá sem sinna rannsóknum á íslenskri menningu, ekki bara fyrir þá heldur líka fyrir vísindamenn hér á landi og háskólastúdenta. Ég vil segja það í upphafi máls míns að þeir ágætu forverar okkar hér í þessum sölum sem áttu frumkvæði að því að reisa Þjóðarbókhlöðuna eiga virðingu skilið og þökk fyrir þá framsýni sem þeir sýndu í því máli. Lögin frá 11. maí 1994 sem samþykkt voru hér á þinginu gefa tilefni til mikilla væntinga um starfsemi hins nýja bókasafns. Þau segja ekki bara að safnið skuli í senn vera þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands heldur er hlutverkum þess lýst í 18. töluliðum og þar segir m.a. að hlutverk þess eigi að vera að gefa safngestum kost á vinnuaðstöðu og greiðum aðgangi að safngögnum, að halda uppi fjölþættri rannsóknarþjónustu, að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi í Háskóla Íslands.

Tæknilega er þessi nýja bygging frábærlega vel úr garði gerð og af þeim sökum á hin nýja háskólastofnun fyllilega að vera fær um að standa undir þeim væntingum sem henni tengjast hvort heldur varðar nám eða fræðistörf. Það er óhætt að fullyrða, herra forseti, að aðstaðan til fræðirannsókna er einstök innan þessarar nýju stofnunar. Hvergi í heiminum eru saman dregin jafnríkuleg föng um íslenska menningu síðustu alda og í fórum hennar. Þar er að finna tugi þúsunda handrita, flest pappírshandrit frá síðustu öldum. Þar er að vísu fátt skinnbóka, enda slík handrit aðallega varðveitt í stofnunum Árna Magnússonar hér heima og í Kaupmannahöfn. Þó er á annað hundrað skinnblaða varðveitt í fórum safnsins og þar er m.a. það merka blað sem Árni Magnússon tók og bar upp að skjánum þegar hann gekk inn á gólf örreytiskots á Skaga og mælti: Loksins það dýra membrana.

Herra forseti. Það er líka þannig að tæknilega er safnið og byggingin einstaklega vel úr garði gerð til rannsókna og náms. Þar eru sérstakir lestrarsalir sem eru vel búnir tækjum og tölvum. Þar eru 100 tölvur sem standa opnar öllum fræðimönnum og stúdentum sem vilja notfæra sér hin viðamiklu gögn stofnunarinnar. Það er óhætt að segja að bókhlaðan er ómetanleg stoð fyrir námsmenn á háskólastigi, enda sannar aðsókn þeirra að safninu það.

Á hinum þjóðlegu sviðum á safnið auðvitað engan sinn líka. En á öðrum sviðum vísinda er það líka gagnmerkt. Þar er alls að finna 800 þúsund bókatitla og á hverju ári berast því um 2.800 titlar tímarita um margvísleg, vísindaleg efni. Að vísu er það svo, herra forseti, að það er nokkurt hryggðarefni að undir forustu þessarar ríkisstjórnar hafa fjárveitingar til safnsins að því er varðar tímaritakaup verið svo skornar niður að háskólinn hefur neyðst til að draga um þriðjung úr kaupum á tímaritum.

Aðgangur að nútímalegum ritakosti er vitaskuld afar nauðsynlegur, raunar óhjákvæmileg forsenda þess að fólk í ströngu háskólanámi standist kröfur um hæfni og þekkingu. Heimildir safnsins og aðstaða eru því sérhverjum háskólastúdent ómissandi hjálp.

En það er eitt annað sem skiptir líka máli varðandi þetta safn. Eitt af helstu einkennum hinnar séríslensku fræðahefðar eru hinir sjálfstæðu fræðimenn, þeir sem hvorki tengjast akademískum stofnunum né hafa viðurværi sitt af því að sinna einhvers konar fræðimennsku. Þetta eru grúskararnir, þetta eru þeir sem hnýsast í gömul gögn. Framlag þessara manna til að ávaxta menningararfinn hefur í gegnum aldirnar og ekki síst á síðustu áratugum verið ómetanlegt. Það er hægt að nefna menn eins og Lúðvík Kristjánsson, Gils Guðmundsson og á allra síðustu árum menn á borð við Guðjón Friðriksson. Það er sammerkt öllum þessum mönnum að stærstan hluta fræðaferils síns iðka þeir rannsóknir utan hefðbundins vinnutíma. Hvernig eiga þessir menn þá að geta sinnt þessum rannsóknum innan þeirra vébanda sem Þjóðarbókhlaðan haslar ef hún er lokuð á þeim einu tímum sem þeir hafa möguleika til þess að stunda þessar rannsóknir. Það er nefnilega þannig að þetta eru mennirnir sem setjast við fræðabrunna heimildasjóða á borð við Landsbókasafn -- Háskólabókasafn þegar venjulegum vinnudegi sleppir.

Í dag, herra forseti, er það þannig að Landsbókasafnið er opið 59 tíma á hverri viku. Það er allt of lítið. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson bar fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. í fyrra um opnunartíma. Þar kom fram að afgreiðslutími safnsins var alls 61 klukkustund á viku. Núna eftir allar kvartanir stúdenta blasir við að búið er að stytta afgreiðslutímann um tvær stundir og hann er aðeins 59 stundir í dag. Þessu hafa háskólastúdentar auðvitað mótmælt og þessu mótmæla líka þeir sem vilja notfæra sér gögn Þjóðarbókhlöðunnar utan hefðbundins vinnutíma. Ég, herra forseti, er einn af þeim mönnum sem hafa sótt í þessa sjóði og auðvitað þykir mér það slæmt að geta hvorki veitt stopulum frístundum mínum um helgar og utan þess tíma sem við vinnum hér til þess að stunda rannsóknir eins og hugur okkar stendur auðvitað til í þessari stofnun.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra á síðasta ári þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti sína fyrirspurn að hann taldi að miðað við önnur lönd væri staðan bara nokkuð góð hjá okkur Íslendingum. En ég hef, herra forseti, skoðað þau gögn sem hæstv. ráðherra lagði til grundvallar þessum staðhæfingum sínum, en það voru einmitt upplýsingar um opnunartíma bókasafna á hinum Norðurlöndunum. Þar kemur fram að Þjóðarbókhlaðan er opin tæpa 59 tíma á viku, en til að mynda Finnar hafa sín bókasöfn að meðaltali opin 69 stundir á viku, í Noregi eru þau opin að meðaltali tæpa 65 tíma, í Svíþjóð líka tæpa 65 tíma, þannig Íslendingar standa miklu aftar öllum þessum þjóðum. Það er einungis í Danmörku samkvæmt þessum upplýsingum sem opnunartíminn er skemmri.

Það er hins vegar vert að undirstrika að t.d. miðstöð Konunglega bókasafnsins, sem í Danmörku gegnir svipuðu hlutverki og Þjóðarbókhlaðan hér, er opin 65 stundir á viku. Því er alveg ljóst að við stöndum líka að baki Dönum þegar um sambærileg bókasöfn er að ræða. Af þeim 19 bókasöfnum sem hæstv. menntmrh. dró saman í svari sínu í fyrra, þá eru 12 sem hafa opnunartímann mun rýmri heldur en við Íslendingar og það eru einungis sjö sem höfðu skemmri opnunartíma. Þetta, herra forseti, sýnir að við Íslendingar erum eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur yfirleitt saman við og það er þess vegna sem þessi þáltill. er flutt. Það er nauðsynlegt að opna safnið. Það er nauðsynlegt að gera sjálfstæðum fræðimönnum kleift að notfæra sér gögnin sem í því er að finna og öll þau óskaplega fínu tæki sem þar er líka hægt að fá til þess að sinna rannsóknum með, en fyrst og síðast skiptir það máli að háskólastúdentar geti haft aðgang að safninu. Bókakostur þess er þess eðlis að hann er óhjákvæmileg forsenda þess að þeir nái að þróa með sér ekki bara rökræna hugsun heldur sköpunargleði og frumkvæði. Og það eru þessir þættir sem æ fleiri rannsóknir sýna að eru undirstaða þess að okkar háskólagengna fólk standist samkeppnina við háskólamenntað fólk frá öðrum löndum. Þetta er auðvitað spurning um framleiðslustig Íslands, þetta er spurning um atvinnulíf en þetta er líka spurning um það að verja hinar menningarlegu hefðir. Og því segi ég það, herra forseti, ég vænti þess að hin háa menntmn. þingsins fjalli um þetta mál af skilningi og geri sér grein fyrir því að til þess að reyna að bæta rannsóknir á Íslandi, bæta stöðu menntunar á Íslandi, þá þarf að efla bókasöfnin. Þetta er liður í því, herra forseti.