Orkusala Landsvirkjunar til stóriðju

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:08:51 (4081)

1997-03-03 15:08:51# 121. lþ. 82.1 fundur 218#B orkusala Landsvirkjunar til stóriðju# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt að það varð niðurstaða þess fundar sem íslenska samninganefndin átti við fulltrúa Elkem í Noregi að ekki gæti orðið af þessum stækkunaráformum í fyrirtækinu þar sem eignaraðilar náðu ekki saman um þau meginatriði sem ná þurfti saman um, eins og verðmæti fyrirtækisins og við hvaða kringumstæður Elkem gæti hugsanlega orðið meirihlutaaðili að þessu fyrirtæki.

Í framhaldi af því var ljóst að úr því að þau virkjana\-áform Landsvirkjunar sem nú lágu fyrir byggðust á því að bæði yrði af byggingu álvers á Grundartanga og stækkun járnblendiverksmiðjunnar og allar líkur sýndu að ekki yrði af stækkuninni, þá voru það að mínu viti hárrétt viðbrögð stjórnenda Landsvirkjunar að leita fyrir sér með áframhaldandi orkusölu. Enda er stjórn og stjórnendum fyrirtækisins gert skylt samkvæmt lögum að leita að viðbótarmarkaði fyrir sölu á raforku í gegnum fyrirtækið. Það þýðir að menn eru að auka tekjur fyrirtækisins. Menn eru að auka arðsemi fyrirtækisins, bæta hagnaðinn, og þannig eru menn að ná þeim áföngum með aukinni orkusölu á hagstæðu verði að geta lækkað raforkuverðið í landinu eins og menn vilja stefna að. Þarna er að mínu viti hárrétt brugðist við af hálfu stjórnenda Landsvirkjunar að hefja strax leit að nýjum aðila sem hugsanlega vilji kaupa þá orku sem þarna yrði til fyrst járnblendifélagið var ekki tilbúið til þeirra kaupa.