Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 15:30:21 (4096)

1997-03-03 15:30:21# 121. lþ. 82.1 fundur 221#B húsnæðisstofnun ríkisins# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[15:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Húsnæðisstofnun hefur legið undir nokkurri ágjöf undanfarnar vikur og mánuði en hún hefur unnið gott starf og á að mínu mati enn þá hlutverki að gegna. Þar er margt saman komið af hæfu og ágætu fólki sem getur orðið að liði. Tímarnir hafa breyst, bankakerfið hefur þróast og viðskiptaumhverfið þannig að við megum ekki vera fastir í fortíðinni, en við eigum hins vegar ekki að kasta frá okkur verkefnum sem vel getur verið fyrir komið í Húsnæðisstofnun.

Ég sé það fyrir mér að afgreiðsla húsbréfa, greiðslumat og veðmat, fari til bankanna. Ég sé það líka fyrir mér að félagslega íbúðakerfið verði einfaldað, sniðnir af því annmarkar bæði gagnvart íbúum í félagslegu íbúðunum og eins gagnvart sveitarfélögunum.