Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:09:48 (4113)

1997-03-03 16:09:48# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:09]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil þessa till. til þál. þannig að hér sé verið að leggja til að allur fiskur sé seldur á uppboðsmörkuðum. Þá vaknar sú spurning hvort það er ekki afar óvenjulegt að svo strangar takmarkanir á viðskiptum séu settar á eitt viðskiptasvið. Hvar tíðkast á öðrum viðskiptasviðum að slíkar takmarkanir séu settar fram? Það hlýtur að kalla á einhverja skýringu á því hvers vegna á að takmarka viðskiptasviðið með fisk með þessum sérkennilega hætti.

Á öðru er rétt að vekja athygli en það er að eftir því sem frammúrstefnufyrirtæki í fiskvinnslu, ef við getum sagt sem svo, hafa náð sterkara sambandi við kaupendur sína erlendis, þá er allt ferlið frá því að fiskurinn er veiddur og þangað til hann er unninn og það skipulag sem þar er á og þær tryggingar sem í því eru að vel sé með fiskinn farið frá upphafi í veiðunum og þangað til honum er skilað, allt þetta ferli gæti truflast verulega með því að leggja svo takmarkandi tillögur fram sem hér er um að ræða. Mér finnst að það vanti í þessa till. til þál. ærið margar skýringar sem málið kallar á.