Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:19:38 (4120)

1997-03-03 16:19:38# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:19]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hæstv. ráðherra er farinn að koma auga á eitthvað sem heitir mismunun í þessu kerfi sem við höfum búið til í kringum okkar sjávarútveg. Það kveður þá satt að segja nýrra við. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst andsvör hans bera vott um vilja til svolítilla útúrsnúninga og hann verður auðvitað að eiga það við sjálfan sig en fyrir mér er það jafnræði að allur sá afli sem seldur er innan lands sé seldur með sama hætti. Ég veit að þar mæli ég fyrir munn sjómannasamtakanna í landinu, eins og ég gat um áðan, og ég er handviss um það, herra forseti, að fyrir þeim vakir ekkert sem heitir mismunun heldur miklu frekar hitt að það er verið að sækjast eftir jafnræði og það er verið að vinna gegn þeirri mismunun sem menn verða fyrir í núverandi kerfi á hverjum einasta degi. Ef menn sjá flöt á því að vinna málið með þeim hætti, sem mér heyrist ráðherrann hafa áhuga á, þ.e. að allur fiskur, alveg sama hvort búið er að vinna hann mikið eða lítið, komi til sölu á innlendum fiskmörkuðum, þá mun ég verða fyrsta manneskjan til að styðja hæstv. ráðherra í þeirri viðleitni hans.