Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 16:38:06 (4123)

1997-03-03 16:38:06# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[16:38]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Í þessum umræðum hefur farið eins og svo oft áður að menn gleyma hvernig hinir frjálsu markaðir urðu til og hverjir það voru sem beittu sér fyrir breytingunni. Sá sem fyrstur mun hafa flutt tillögu um það á Alþingi að breyta fiskverðsákvörðunum yfir í frjálsar markaðsákvarðanir var Vilmundur heitinn Gylfason, þáv. þingmaður Alþfl. og einn af helstu forustumönnum jafnaðarmanna. Hann flutti á Alþingi tillögur um þessar breytingar og sætti þá mjög harðri andstöðu, ekki síst frá flokki hæstv. sjútvrh. sem þrátt fyrir mikið tal um markað og markaðsfylgni er nú ekki meiri markaðsflokkur en svo að hann stóð lengi gegn hugmyndum um frjálst fiskverð og opnun fiskmarkaða. Þar má líka nefna ýmsa hagsmunagæsluaðila í sjávartútvegi sem fannst þetta vera algjör firra. En þetta mál hafðist í gegn og ég held að það sé enginn sem vill stíga það skref til baka enda hefur ekki komið fram í þessum umræðum að nokkur óski þess. Við skulum því vera minnug þess í umræðunum hvernig frjálst fiskverð og frjálst markaðskerfi við fiskverðsákvörðun var komið á, hverjir studdu það og fluttu fram fram og hverjir voru á móti því þangað til þeir treystu sér ekki til að spyrna lengur gegn broddunum.

Hvernig er ástandið núna? Við búum við þær aðstæður á Íslandi sem mjög fáir sjómenn í öðrum löndum búa við, þ.e. kaup og kjör sjómanna á íslenskum fiskiskipum eru ákveðin með hlutaskiptum, ekki með föstu kaupi, heldur með hlutaskiptum. Það er því að sjálfsögðu mikið mál fyrir þá hvort um er að ræða eðlilega verðmyndun á fiski á markaði eða hvort þeir verði að una ákvörðunum þar sem ekki er um markaðsákvarðanir að ræða á fiski sem er grundvöllurinn að kaupi þeirra og kjörum. Það getur verið að hagkvæmara sé fyrir einhverja aðila að kaupa fisk til vinnslu á lægra verði heldur en markaðurinn ákveður. En það er þá einhver sem greiðir fyrir. Sá sem greiðir fyrir að verulegu leyti er sjómaðurinn sem fær þá lægra skiptaverð en hann mundi fá ef markaðslögmálin réðu ákvörðun um fiskverð. Þess vegna er mjög eðlilegt að sú krafa komi frá sjómannasamtökunum, þegar þau hafa mörg dæmi um að hlutur sjómanna er þannig fyrir borð borinn, að markaðskerfið verði látið stjórna í meira mæli fiskverðsákvörðun heldur en gert hefur verið. Það er alveg sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi taki slíkar tillögur til skoðunar. Það sem hér er verið að gera er að það er einfaldlega verið að leggja fram till. til þál. um að Alþingi lýsi yfir vilja sínum í þeim efnum. Það er einfaldlega verið að leggja fram tillögu um viðbrögð Alþingis við þeim umræðum sem orðið hafa og þeirri stefnu sem sjómannasamtökin hafa markað. Það er mjög eðlilegt að slík tillaga komi fram á Alþingi Íslendinga og það er mjög eðlilegt að slík umræða eigi sér stað í sjútvn. og að niðurstaða af þeim umræðum, hver svo sem hún verður, verði síðan kynnt sem tillaga að afgreiðslu nefndarinnar á þeirri þáltill. sem hér hefur verið flutt.

Auðvitað eru ýmis vandkvæði á því að skylda allan fisk á markað, en það eru ekkert meiri vandkvæði, nema síður sé, en voru á því hér á árum áður að breyta frá miðstýrðu kerfi yfir í markaðskerfi. Þá komu þingmenn hér upp hver á fætur öðrum og sögðu að slík breyting væri þess eðlis að ekki væri óhætt að ráðast í þær miklu sviptingar sem fylgja mundu í kjölfarið. Þeir ágætu þingmenn sem þannig töluðu þegar málið var hér fyrst á dagskrá þegja nú. Þeir rifja ekki upp sín fyrri ummæli, þeir gera ekki tillögu um að horfið verði aftur til fyrri hátta. Það er því ekkert óeðlilegt við það að sú ósk, sem komið hefur fram hjá sjómannasamtökunum og rökstudd var með rökum eins og ég nefndi hér áðan, sé tekin til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga. Þetta er tillaga um það. Menn mega ekki heldur gleyma því að fiskmarkaðirnir hafa treyst stöðugleika og sérhæfingu í íslenskri fiskvinnslu. Það eru fjölmörg fyrirtæki sem byggja starfsemi sína fyrst og fremst á því að kaupa á fiskmörkuðum og vinna þann afla sem þannig er keyptur. Það eru t.d. mörg slík fiskvinnslufyrirtæki sem hafa náð góðum árangri á erlendum mörkuðum með sölu á nýjum fiski sem þau hafa unnið á neytendamarkað og keypt með þessum hætti af fiskmörkuðum. Það er því algjörlega rangt að fiskmarkaðir hafi grafið undan stöðugleika og sérhæfingu í íslenskri fiskvinnslu. Þvert á móti eru fiskmarkaðirnir undirstaða margra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig og standa í stöðugum og tíðum viðskiptum við erlenda kaupendur.

Virðulegi forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að vera að snúa út úr því máli sem hér er flutt með þeim rökum sem menn notuðu á sínum tíma á móti því að fiskverð yrði gefið frjálst. Mér er alveg ljóst að það eru vandkvæði á því að framkvæma þessa tillögu eins og það voru vandkvæði á því á sínum tíma að taka upp frjálsa fiskverðsmyndun. Þrátt fyrir þau vandkvæði var það gert og hefur skilað góðum árangri. Ég er alveg sannfærður um að með því að taka markaðsbúskapinn enn betur í þjónustu sína er hægt að ná enn betri árangri bæði fyrir fiskvinnsluna, sjómenn og útgerðarmenn í okkar landi.