Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:44:15 (4139)

1997-03-03 17:44:15# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:44]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður ekki komið hér og flutt aðra ræðu þar eð tími minn mun vera útrunninn í þeim efnum, en mér finnst að hv. síðasti ræðumaður gefi e.t.v. tilefni til þess vegna þess að mér finnst hann vera kominn með okkur á byrjunarreit aftur.

Ég ætla hins vegar ekki í þessum stutta tíma sem ég hef í andsvari að reyna að fara yfir málflutning hans. Það er alveg ljóst að menn eru að gæta ýmissa hagsmuna, jafnvel eru menn að vinna í þágu tiltekinna sölusamtaka svo merkilegt sem það kann nú að virðast. En menn mega ekki gleyma því að sjómennirnir í landinu eru aðilar að þessu máli og ekki svo lítill.

Ég vil vitna, með leyfi forseta, í Helga Laxdal, formann Vélstjórafélags Íslands, þar sem hann segir: ,,Áhöfn er eignaraðili að sínum hlut um leið og afli kemur um borð.`` Fyrir þessu, herra forseti, liggur niðurstaða úr dómi þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/1986 verður að telja að áhöfn skips öðlist eignarhlutdeild í verulegum hluta afla skips um leið og hann hefur verið veiddur og honum verði ekki ráðstafað án samþykkis hennar nema raunvirði fáist fyrir.``

Hvar ætla menn að fá þetta raunvirði? Hvar fæst raunvirði? Fæst það með ákvörðun nefndar eða fæst það með því að útgerðaraðili sem á hagsmuna að gæta í vinnslu ákvarði verðið? Nei, herra forseti. Þetta raunvirði fæst bara á markaði.