Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 17:55:59 (4142)

1997-03-03 17:55:59# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[17:55]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Vitaskuld er það kórrétt að hið endanlega verð fyrir fullunnar afurðir fæst á erlendum mörkuðum. Stundum fæst hið endanlega verð fyrir óunninn fisk á erlendum mörkuðum. Vegna þess að við flytjum svo til allan okkar fisk út, þá er það verðið á erlendum mörkuðum sem er hið endanlega verð fyrir afurðirnar.

Varðandi síðari spurningu hv. þm. þá hef ég ekki nákvæmar upplýsingar um hversu margir vinna fisk af eigin skipum og hversu margir kaupa fisk í beinum samningum af skipum frá öðrum eða á uppboðsmörkuðum. En mín skoðun er sú að markaðskerfið eigi að fá að starfa þannig að þeir sem telja sig fá mesta verðmætasköpun með því að vinna afla af eigin skipum og sýna fram á það, þeir eiga að vera frjálsir að því. Þeir sem telja sig leysa sín mál betur með því að gera beina samninga við útgerðarmenn eiga að vera frjálsir að því. Þeir sem vilja fara með fiskkaupin um markað eiga að vera frjálsir að því. Með öðrum orðum, ég tel að við megum ekki takmarka þá möguleika sem markaðskerfið býður upp á í þessu efni og það eigi ekki að búa til opinberar forskriftir þar um. Það sé atvinnulífið sjálft sem er farsælast um að finna þær leiðir. Þær geta verið breytilegar frá einum tíma til annars. Þær geta verið mismunandi eftir tegundum og þar fram eftir götunum. Þar kemur auðvitað í ljós að atvinnulífið og ekki síst þessi atvinnugrein er svo fjölbreytt að það verður alltaf til tjóns þegar verið er að setja takmarkanir af þessu tagi um markaðsviðskipti.