Sala afla á fiskmörkuðum

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:00:53 (4145)

1997-03-03 18:00:53# 121. lþ. 82.12 fundur 202. mál: #A sala afla á fiskmörkuðum# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:00]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra ætlast ekki til að þau rök hans séu tekin alvarlega að þessi tillaga taki ekki til viðskipta með afurðir frystiskipa og fullvinnsluskipa sem aldrei koma inn í landhelgina vegna viðskipta. Það getur ekki verið gagnrýnin á þessa tillögu.

Í annan stað segir hæstv. ráðherra: Þessi tillaga er um takmörkun á eðlilegum viðskiptarétti og viðskiptaháttum, og tekur líkingu af kexi. Er þetta nú vandlega íhuguð samlíking, hæstv. ráðherra? Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um hvaða hlutaskiptareglur gilda í kexbisnessnum? Er það svo að kjarasamningar við kexframleiðendur, launþega og kexframleiðendur --- vill hann líkja þeim við hlutaskiptasamninga sjómanna? Það er nefnilega partur af þessum vanda að sjómenn róa upp á hlut.

Nú er það svo að þeir hafa kjarasamning um að það eigi að leita hæsta verðs fyrir alvöru. Það er ekki gert, hæstv. ráðherra. Það er t.d. engin trygging fyrir því að það sé gert í innherjaviðskiptum. Í raun og veru er hægt að nefna dæmi um að útgerðarmenn eru einráðir um þessa verðmyndun þannig að meira að segja kexsamlíkingin dugar ekki til. Þessi tillaga er til þess að brjótast út úr slíkum vítahring, að innleiða almennar reglur þar sem bæði útgerðarmenn og sjómenn geta þá leyst deilur sem hafa komið upp og eru orðnar mjög alvarlegar á þann veg að markaðurinn ráði fremur en geðþóttaákvarðanir eða einhliða ákvarðanir annars aðilans. Og sannleikurinn er sá að sennilega er þessi tillaga ekki síst til þess fallin að hjálpa hæstv. ráðherra. Hann ætti auðvitað að taka undir þessa tillögu því að hún gæti orðið honum að verulegum stuðningi næst þegar sú staða kemur upp að sjómenn munu einfaldlega sigla flotanum í land vegna þess að þeir una ekki lengur við þessa mismunun.