Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:08:31 (4149)

1997-03-03 18:08:31# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:08]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur af þeim þremur frv. sem verða rædd saman. Það er í fyrsta lagi 219. mál sem er frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, en flutningsmenn auk mín eru þeir hv. þm. Gísli S. Einarsson og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir.

Þetta frv. fjallar um afmarkaðan þátt í fiskveiðistjórnarkerfinu, þ.e. framsal veiðiheimilda, er nokkur takmörkun á framsali veiðiheimilda. Frv. er liður í víðtækri stefnumótun þingflokks jafnaðarmanna í sjávarútvegsmálum en áðan var rætt eitt af fimm þingmálum þingflokks jafnaðarmanna eða einstakra þingmanna í þingflokki jafnaðarmanna, um að allur fiskur sem seldur er hérlendis verði seldur á fiskmarkaði, en önnur mál í þessum flokki er hin þekkta ályktun um veiðileyfagjald sem var rædd í haust og síðan hefur þegar farið til nefndar frv. til laga um að heimila útlendingum að fjárfesta í fiskvinnslu hér á landi.

Þetta mál er þannig fjórða málið í röð þingmála þingflokks jafnaðarmanna, en fimmta málið og síðasta í þessari sjávarútvegshrinu, er það mál sem ég mun tala fyrir á eftir sem fjallar um undirmál eða brottkast á afla.

Meginatriðið varðandi framsal eða þá umræðu sem tengist fiskveiðistjórnarkerfinu hefur verið umræðan um veiðileyfagjald og eins og við vitum skiptast menn mjög í fylkingar hvað þann þátt varðar. Við sem erum talsmenn veiðileyfagjalds höfum haldið fram réttlætisrökum í því máli, þ.e. úr því að ríkisvaldið afhendir veiðiheimildir ókeypis og menn hagnast á kaupum, sölum eða leigu á veiðiheimildum án þess að hafa greitt nokkuð til eigandans, að enga sanngirni sé að finna í því fyrirkomulagi. Í öðru lagi höfum við dregið fram sem röksemd fyrir veiðileyfagjaldi að sóknarfæri séu nýtt á efnahagssviðinu með veiðileyfagjaldi til að skapa svigrúm til að byggja upp annað atvinnulíf við hlið sjávarútvegs.

Hins vegar, og það er nauðsynlegt að menn átti sig á því, að veiðileyfagjald hefur ekkert með framsal veiðiheimilda að gera og ekkert með fiskveiðistjórnarkerfið að gera en þetta frv. tekur einmitt á tilteknum þætti í þeim efnum. Framsalið á veiðiheimildum er ákveðinn grundvallarþáttur í aflamarkskerfinu og hefur bæði verið gagnrýnt en kostir þess hafa einnig verið dregnir fram. Framsal veiðiheimilda í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er að stærstum hluta þannig að skipt er á veiðiheimildum innan sömu útgerðar og jöfn skipti eru á veiðiheimildum milli útgerðaraðila. Þetta er það fyrirkomulag sem almennt er talið leiða til hagkvæmni og hagkvæmari stýringu veiða.

Annar flokkur slíks framsals er þegar veiðiheimildir eru leigðar innan ársins eða þær eru keyptar og seldar varanlega og greitt er fyrir með peningum. Þetta er sá þáttur þegar sumir bæta við sig veiðiheimildum, aðrir minnka við sig. Það er einmitt þessi þáttur framsalsins sem hefur verið gagnrýndur og liggja til þess tvær ástæður. Önnur er sú að veiðiheimildunum er úthlutað ókeypis og fjölmargir hafa gagnrýnt að úr því að veiðiheimildunum er úthlutað ókeypis, þá sé ekki sanngjarnt að stýrikerfið bjóði upp á að þessir handhafar veiðiheimildanna geti hagnast verulega. Þetta er ein af röksemdunum fyrir veiðileyfagjaldi eins og ég gat um áðan.

Hitt atriðið sem hefur valdið mikilli gagnrýni er að menn leigja frá sér kvóta en leigja hann síðan til sín aftur og láta sjómenn taka þátt í þeim kvótakaupum. Þetta er það sem sjómenn hafa gagnrýnt hvað mest varðandi framsalið og er undirrótin að þeirri óánægju sem hefur verið með framsalskerfið fyrir utan þá staðreynd að ekki er veiðileyfagjald lagt á veiðiheimildir sem úthlutað er. Þessi viðskipti sem ég lýsti, þ.e. þátttaka sjómanna við kaup á veiðiheimildum, eru bönnuð. Það hefur verið settur lagarammi í kringum þá þætti og líka gengið frá því í kjarasamningum en það virðist vera að þau mál hafi ekki haldið nægjanlega vel að mati sjómanna. Benda má einmitt á að ein af röksemdunum fyrir því máli sem var rætt áðan, þ.e. að allur afli fari um fiskmarkaði, er einmitt til að taka m.a. á þeim vanda auk annarra röksemda fyrir því máli sem voru rakin áðan.

Þetta frv. sem hér er til umræðu tekur hins vegar á einu ákvæði í núverandi lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflaverðmæti í þorskígildum talið tvö ár í röð, þá fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækki sem því nemur. Þetta segir okkur að hægt er að veiða 51% sem tæki tvö ár í röð, það er alltaf litið yfir tvö ár í núverandi lögum. Ástæðan er m.a. sú að menn telja að sú vannýting á úthlutuðum fiskveiðiheimildum verði að vera yfir lengra tímabil svo að rétt sé að refsa með því að menn missi veiðiheimildirnar. Þetta þýðir hins vegar það að nægjanlegt er að veiða 51% og leigja frá sér 49% yfir tveggja ára tímabil.

[18:15]

Tillaga okkar í þingflokki jafnaðarmanna er einföld. Hún gengur út á það að fiskiskip verði að veiða 80% af fiskveiðihlutdeild sinni. Það eina sem er breytt í núgildandi lögum er að hlutfallið er hækkað úr 50% í 80%, miðað við tvö fiskveiðiár í röð. Hugsunin er alltaf tvö ár, bæði í lögum og í þessu frv. Hér er vitaskuld verið að tala um að útgerðaraðili verði að nýta sér a.m.k. 80% af aflamarki samanlagt tvö ár í röð, ef hann á ekki að missa veiðiheimildir sínar.

Með þessu frv. eru menn hvattir til þess, og það er megintilgangurinn frv., að vera annaðhvort inni í fiskveiðistjórnarkerfinu, þ.e. vera í útgerð af fullum krafti ef við getum orðað það svo, því að nú er það þannig að menn mega flytja 20% af fiskveiðiheimildum á milli ára þannig að menn hafa þegar svigrúm í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að færa á milli ára og það er ósköp eðlilegt fyrirkomulag í fiskveiðistjórnarkerfinu, eða hverfa úr útgerð. Ef frv. verður samþykkt í því formi það er hér, þá knýr það menn til að annaðhvort veiða meira af sínum úthlutuðu aflahlutdeildum eða að hætta og fara úr útgerð, þ.e. nokkuð verður dregið úr leiguviðskiptum með þessu frv. Að okkar mati er þetta frv. mikilvæg endurbót á núverandi kerfi, það takmarkar framsal að nokkru leyti. Gert er ráð fyrir að þeir sem fá úthlutað veiðiheimildum verði að veiða meira af þeim sjálfir, en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum.

Það er ekki mikið um að menn nýti sér ekki að veiða þau 50% aflaheimilda sem eru í núgildandi lögum. Tölur sýna að það er lítið um að aflaheimildir falli niður, enda mjög eðlilegt vegna þess að menn reyna að nýta þær heimildir sem þeir fá úthlutað og komast hjá því að þær falli niður, annaðhvort með varanlegri sölu eða með því, sem er reyndar ekki gott í núverandi kerfi, þ.e. að geyma heimildir yfir fiskveiðiáramótin eins og þekkist. Það er auðvitað ekki í anda laganna. Það er ekki í anda núverandi löggjafar og vitaskuld ekki í anda þeirrar hugmyndafræði sem liggur að baki þessu frv. Burt séð frá því hvort þetta frv. verður samþykkt eða ekki þarf að skoða betur þann þátt þegar menn eru að geyma mikið af fiskveiðiheimildum fyrir aðra aðila, geyma þær yfir áramótin og framselja síðan aftur til baka. Eðli framsalsins í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var alltaf upprunalega það að veiðiheimildir skiptu varanlega um eigendur. Eiginlega má segja að flestir sem hafa komið nálægt núverandi fiskveiðistjórnarkerfi áttuðu sig ekki á því að leiguviðskiptin, þ.e. viðskiptin með veiðiheimildir innan ársins, mundu verða eins umfangsmikil og raun ber vitni. Mjög margir sem hafa komið að umræðu um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, og ég er einn af þeim, hafa tjáð sig um það að leiguviðskipti innan ársins hafa tekið miklu rýmri þátt í kvótaviðskiptum en menn héldu í upphafi. Menn héldu að þetta mundi verða meira í því formi að það skiptust á varanlegar heimildir og menn hagræddu, færu úr útgerð eða bættu við sig eftir því sem þeim þætti hagkvæmt hverju sinni.

Þetta frv. miðar að því að taka á afmörkuðum þætti þessa máls. Hér er ekki gengið eins langt og hefur verið gert í öðrum tillögum, að banna allt framsal, bæði varanlegt og leiguframsal en eins þekkjast líka hugmyndir um að taka á afmörkuðum þætti málsins.

Við gerum ráð fyrir því, herra forseti, að sú takmörkun á framsali innan ársins sem þetta frv. gerir ráð fyrir, muni ekki virka þannig að hagkvæmni sé stefnt í hættu, enda er náttúrlega mjög mikilvægt að það bæði ríki hagkvæmni í kerfinu og meiri sátt en nú er. Þessari tillögu er ætlað að koma nokkuð til móts við þá gagnrýni sem hefur verið á núverandi útfærslu kerfisins þannig að með samþykkt þessa frv. er komið í veg fyrir að útgerðaraðilar leigi árlega frá sér stóran hluta úthlutaðra veiðiheimilda og stundi ekki veiðar í samræmi við úthlutaðan kvóta. Þannig, herra forseti, tekur þetta frv. á veigamiklum þætti í gagnrýni á framsal veiðiheimilda í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Herra forseti. Síðara málið sem ég mæli fyrir, er einnig frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það er flutt auk mín af þingmönnum í þingflokki jafnaðarmanna, þ.e. þeim hv. þm. Gísla S. Einarssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni, Lúðvík Bergvinssyni, Sighvati Björgvinssyni og Svanfríði Jónasdóttur. Það frv. tekur á nokkuð öðrum þætti heldur en hér var verið að fjalla um. Ástæðan fyrir því að málin eru rædd saman er sú að sjávarútvegsumræða á hinu háa Alþingi vill oft snúast um marga þætti þessa málaflokks þannig að það er ekki óeðilegt að þeir séu teknir hér saman. Ég vil hins vegar geta þess að á eftir verður rætt frv. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mun mæla fyrir sem snýst reyndar um breytingu á ákvæðum sem ég fjallaði um áðan, þ.e. 50% regluna, það er tiltekin útfærsla varðandi þær veiðar sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á. Þó að ekki sé búið að tala fyrir því máli þykir mér rétt að segja að eins og það frv. er sett fram, finnst mér það vera mjög eðlileg endurbót á núverandi kerfi og taka mið af þeim breyttu aðstæðum sem þar hafa komið. Að vísu er þar talað um 50% en hugsunin gengur ekki út á það, heldur gengur út á svokallað viðmiðunarhlutfall, lækkun á viðmiðunarhlutfalli ef skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilögsögu og tekur mið af því að búið er að semja um marga stofna sem eru fyrir utan lögsöguna. Þetta tel ég vera eðlilega endurbót á núverandi kerfi en það verður rætt betur á eftir.

Frv. sem ég nefndi hér áðan hins vegar, 263. mál á þskj. 498, er vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um brottkast á fiski, þ.e. fiski sé hent útbyrðis af fiskiskipum. Það ganga miklar sögur um þann þátt. Ekki er kannski alltaf hægt að henda reiður á því að hve miklu leyti slíkar sögur eiga við rök að styðjast, en samt sem áður er talið að það sé einkum undirmálsfiskur sem er hent fyrir borð.

Ástæður fyrir því að fiski er hent geta verið ýmsar. Hann getur verið mjög smár og mönnum finnst ekki borga sig að ganga frá slíku smælki. Hins vegar getur verið að það sé ekki kvóti til fyrir þeim tegundum sem koma með öðrum í veiðarfæri og til að forðast upptöku afla og sektir, þá hendi menn fiski. Smár fiskur er verðminni en stærri fiskur og af því að menn vilja nýta kvótann sem best, þá henda menn frekar smáum fiski til að veiða stærri fisk upp í kvóta. Og loks er hægt að geta um að ef gerðir eru sérstakir samningar um veiði, t.d. að aðili lætur skip hafa kvóta en áskilur að fiskurinn sé t.d. yfir 6 kg og kaupir einungis þann fisk, þá getur það líka leitt til brottkasts.

Ég ætla ekkert að fullyrða í sjálfu sér um hvort þessar ástæður kalli á að fiski sé hent. Það er ekki leyfilegt að henda fiski, en það er hægt samt að líta á að þau atriði sem ég nefndi geti stuðlað að því við tilteknar aðstæður. Það er því brýnt að reyna að taka á þessu máli. Það er ekki auðvelt. Við gerum það hins vegar í þessu frv. með því að leggja til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þannig að undirmál, og undirmál er skilgreint í þessu frv. en hefur áður verið reglugerðarákvæði, er tekið inn í lögin núna og það er kveðið á um að undirmál verði allt utan kvóta.

Nú er það þannig að undirmál er að hálfu leyti utan kvóta en allt undirmál smábáta er í kvóta. Hér er sem sagt meginreglan sú að undirmál verði allt utan kvóta, en þar að auki má undirmál ekki vera meira en 10% af afla hverrar tegundar í hverri veiðiferð. Menn mega ekki sem sagt koma með bara undirmál að landi. Það eru takmarkanir sem eru reyndar í núgildandi lögum hvað þetta varðar. Smábátum er heimilt að koma með undirmál að landi eins og öðrum skipum, það er ekki gerður greinarmunur á því. Aðalástæðan fyrir því að hafa undirmál utan kvóta, er að þá er tekin burt ein veigamesta ástæðan fyrir því að kasta fiski, þ.e. ef hann telst til kvóta þá rýrir hann kvótaaðila og ef um lítinn fisk er að ræða, sem segir sig náttúrlega sjálft úr því að um undirmál er að ræða, þá hefur einmitt þetta stuðlað frekar að því að fiskur hafi ekki komið að landi. Síðan er þetta útfært þannig að undirmáli verði haldið aðgreindu um borð í fiskiskipi og selt á fiskmarkaði sem tryggir eftirlit. Nú er sem sagt hugmyndafræðin hér ekki þessi almenna að allur fiskur eigi að fara á fiskmarkað, það er reyndar skoðun flutningsmanna að það sé skynsamleg útfærsla, heldur er hugmyndin sú að láta undirmálsfiskinn fara um fiskmarkaði til að tryggja eftirlit. Á árum áður var nefnilega sú regla að undirmál var utan kvóta. Það má segja að það kerfi hafi brotnað niður vegna þess að menn tóku fisk inn í hús hjá sér, kölluðu hann undirmál, voru í sjálfstæðum viðskiptum og svo þegar eftirlit var haft með, því það var ekki nokkur opinber eftirlitsaðili sem kom þá að þeirri verðlagningu, þá kom í ljós að aðilar voru farnir að misnota þessa heimild. Þetta var ekki undirmálsfiskur heldur fullvaxta fiskur sem menn kölluðu undirmálsfisk til að losna við að reikna hann inn í kvóta. Það er tekið á þessu með því að segja að fiskurinn skuli fara á fiskmarkað. Þetta var á þeim tíma þegar fiskmarkaðir höfðu ekki unnið sér þann sess sem þeir hafa núna, en eins og menn vita tryggir sala á fiskmarkaði eftirlit bæði með stærð og öðru. Fiskmarkaðir starfa eftir starfsleyfi sjútvn. þannig að hér skapast þá virkt eftirlit, fyrir utan það að þarna myndast verð á markaði sem hefur dálitla sérstöðu vegna þess að fiskurinn er ekki tekinn í kvóta. Það er ástæðan fyrir því sem er fjórða atriðið í þessu, þetta er heilsteypt útfærsla í frv. okkar, að vitaskuld eiga tekjur af undirmálsfiski ekki teljast eins og aðrar tekjur af fiski sem útgerð og sjómenn afla vegna þess að þetta er utan kvóta. Hins vegar eiga þeir ekki að verða fyrir útgjöldum ef þeir koma með undirmál að landi. Þess vegna er gert ráð fyrir að einungis fjórðungur af aflaverðmæti undirmálsfisks sem fæst á markaði komi til skipta. Hinir 3/4 hlutarnir renni til sérstakra málefna sem tengjast sjávarútvegi, þ.e. 1/4 renni til að efla slysavarnir sjómanna en flutningsmenn telja að þar séu ýmis mál brýn og þeim málum sé í sjálfu sér aldrei of vel sinnt, 1/4 skuli látinn renna til hafrannsókna og þá með þeirri hugsun að rannsókn á lífríki sjávar komi bæði sjómönnum, útgerðarmönnum og öllum landsmönnum til góða. Þetta er svona eyrnamerking á þeim tekjum sem þarna skapast. Síðan er 1/4 látinn renna til sjómanna óbeint, þ.e. til stéttarfélaga þeirra sem ráðstafa honum til orlofsmála sjómanna. Sjómenn eru lengi fjarri heimilum sínum og orlof þeirra oft mikilvægara en hjá flestum starfsstéttum þessa lands. Þarna er búin til karfa í ráðstöfun á undirmálsfiski. Meginatriðið er náttúrlega að undirmálsfiskurinn komi að landi, menn hafi yfirlit yfir hann, úr honum verði verðmæti og að þessu verðmæti sé þannig skipt að um það geti skapast sátt.

[18:30]

Það er hins vegar hægt að nefna aðra þætti sem geta hjálpað til við vandamál með brottkast eða undirmálsfisk og það er nefnt sérstaklega í greinargerðinni, hlutur sem hefur nokkuð verið í umræðu nú undanfarið og það er smáfiskaskilja sem verið er að þróa hér í meira mæli en verið hefur. Þetta hefur verið rætt aðeins á hinu háa Alþingi. Það eru Austfirðingar sem hafa haft forgöngu og menn binda vonir við þetta. Þetta er byggt að hluta til á norskri útfærslu en menn eru að vonast til þess að smáfiskaskiljan geti þegar fram líða stundir skilið smáfisk þannig frá öðrum fiski að honum sé sleppt aftur lifandi í sjóinn. Og ef það gengur allt eftir, þá erum við kannski búin að leysa það meginvandamál sem við erum að tala um, þ.e. brottkast fisks, að fiskur sé drepinn en ekki nýttur. Það er ekki vitað, menn eru að fikra sig áfram með notkun á þessu og starfshópur sem tengist sjútvrn. hefur unnið í þessu máli. Ég veit að menn binda vonir við þetta og það gerum við flm. líka.

Ég vil einnig geta þess að til eru aðferðir til sjálfvirks eftirlits með myndbandatækni, að reikna út hvað er í veiðarfærum. Hægt er að reikna út aflamagn í trolli út frá álagi á vírum. Það er meira að segja hægt að reikna nákvæmlega út þyngd á fiskiskipi. Sumt af þessu finnst mönnum vera dálítið fjarlægt en það er ekki svo. Það eru til ýmsar aðferðir sem byggjast á nýjustu tækni og vísindum sem gera kleift að fylgjast betur með mörgum þessara þátta heldur en var hér áður. Sumt af þessu er notað að hluta til í útlöndum þótt á tilraunastigi sé. Við vekjum athygli á þessu og væntum þess að menn reyni að fylgjast eins vel og hægt er með þessum þáttum, hinni nýju tækni varðandi undirmál, og grípa þá möguleika sem gefast.

Það breytir því ekki, herra forseti, að eins og við leggjum þetta frv. upp, að hafa undirmál utan kvóta, hafa takmörkun á heildarmagni og það gildir fyrir allan flotann, þetta sé selt undir eftirliti fiskmarkaða og andvirði renni til verðugra málefna eins og við lýstum áður og aðeins hluti komi til skipta. Við teljum að með þessu sé fundin skynsamleg leið til að minnka brottkast á fiski. Vitaskuld er ekki komið í veg fyrir það allt saman. Við ætlumst ekki til að þessi frv. sem ég hef hér talað fyrir leysi öll þau vandamál en að mati okkar horfa tillögurnar til bóta og vonandi getur skapast um þær samstaða þó svo að menn hafi skiptar skoðanir á öðrum þáttum í sjávarútvegsmálum. Ég vænti þess, herra forseti, að þessi mál fái brautargengi á hinu háa Alþingi.

Að svo mæltu legg ég til, að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.