Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 18:46:42 (4151)

1997-03-03 18:46:42# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[18:46]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einungis þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir undirtektir við annað af þeim málum sem ég ræddi hér um. Hann gat réttilega um þessa gagnrýni þar sem hann vitnaði í hina mætu menn á Ólafsfirði sem við þekkjum vel sem höfum starfað í greininni, að breyta þessu ákvæði eins og einmitt er lagt til í því frv. sem ég talaði fyrir áðan, hvort það er hækkað úr 50% í 80% yfir tvö ár eins og tillagan gerir ráð fyrir eða 50% ár hvert eða eitthvað þess háttar. Það er útfærsluatriði sem menn geta skoðað.

Ég tel sömuleiðis eins og ég gat um áðan að sú tillaga sem hv. þm. gerði grein fyrir í frv. sínu og hv. sjálfstæðisþingmanna sé til bóta og ég tel að þarna sé hugsanlega hægt að finna þá útfærslu sem lagfærir þetta kerfi, eins og frv. okkar jafnaðarmanna gerir ráð fyrir í þessum tiltekna þætti og hv. þm. tók undir, og síðan frv. nokkurra sjálfstæðisþingmanna sem ég tek undir einnig. Mér sýnist ýmislegt benda til að hugsanlega væri hægt að ná einhverri samstöðu í sjútvn. þingsins um frekari útfærslu á þessum þætti. Ég tel það vera brýnt. Ég tel ekki að þarna séu öll vandamál leyst en ég held að með þessari útfærslu sé sátt komin á tiltekna þætti og lagt upp með lausn sem menn ættu að geta orðið sammála um.